| Sf. Gutt

Verður Ruben Amorim arftaki Jürgen Klopp?


Verður Portúgalinn Ruben Amorim arftaki Jürgen Klopp sem framkvæmdastjóri Liverpool? Allmargir fjölmiðlar telja að samningaviðræður við hann um að taka við hjá Liverpool séu mjög langt komnar. 

Fyrstu fréttir af því að forráðamenn Liverpool hefðu byrjað samningarviðræður við Ruben, sem er framkvæmdastjóri Sporting í Lissabon, birtust í portúgölskum fjölmiðlum en nú hafa fjölmiðlar á Bretlandi tekið þessar fréttir í birtingu.
Nokkuð er þó óljóst um hvernig þetta allt er. 

Sky í Þýsklandi greinir frá því í dag að Ruben og forráðamenn Liverpool hafi komist að munnlegu samkomulagi um þriggja ára samning. Samkvæmt fréttinni er búið að ganga frá flestu því mikilvægasta í samningnum.

Xabi Alonso fyrrum leikmaður Liverpool og núverandi framkvæmdastjóri Bayer Leverkusen var talinn efstur á blaði hjá forráðamönnum Liverpool. En hann kemur ekki því hann ákvað að vera um kyrrt hjá þýska liðinu. Þá má segja að Ruben hafi tekið við sem efsti maður á blaði hjá Liverpool. 

Ruben Amorim er búinn að vera framkvæmdastjóri Sporting Lissabon frá því 2020. Áður stjórnaði hann Braga í eina leiktíð. Hann vann Deildarbikarinn með Braga 2019/20 og komst með því í sviðsljósið. Hann gerði Sporting að portúgölskum meisturum á sinni fyrstu leiktíð og vann líka Deildarbikarinn. Sporting varði svo Deildarbikarinn árið eftir. Árið 2021 vann Sporting Stórbikar Portúgals. 

Um helgina var Ruben spurður um framtíð sína sem framkvæmdastjóri Sporting. Hann svaraði því til að hann gæti ekki fullyrt að hann myndi vera við stjórn Sporting á næsta keppnistímabili. Hvað svo sem verður má telja líklegt að eitthvað sé í gangi milli Liverpool og Ruben. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan