| Sf. Gutt

Stórsigur og áfram á toppnum!


Rauði herinn gerði góða ferð á suðurströndina og vann stórsigur 0:4 í Bournemouth. Þetta var sterkur sigur og með honum heldur Liverpool áfram að leiða deildina. 

Heimamenn hafa verið frábærir síðustu vikurnar í deildinni og unnið góða sigra. Það sást vel á fyrstu mínútunum en þá gerðu þeir harða hríð að marki Liverpool. Eftir því sem á leið náðu leikmenn Liverpool undirtökunum. Hálfleikurinn leið reyndar án þess að verulega hættuleg færi sköpuðust. Ekkert hafði verið skorað þegar flautað var til hálfleiks. 

Eitt var þó til umræðu í leikhléinu en eftir um hálftíma steinlá Luis Díaz eftir að Justin Kluivert hafði troðið á honum. Margir báru atvikið saman við þegar Curtis Jones var rekinn af velli á móti Tottenham í haust. Í þessu tilviki var ekki nokkur skapaður hlutur dæmdur. Ótrúlegt því Justin hefði í raun átt að vera rekinn út af þó ekki væri um ásetning að ræða. 

Liverpool fékk óskabyrjun í síðari hálfleik og skoraði eftir aðeins fjórar mínútur. Góðum samleik lauk með því að Diogo Jota sendi inn að vítateignum þar sem Darwin Núnez skoraði með viðstöðulausu skoti neðst í hægra hornið. Laglegur samleikur. Allar sendingar teknar í fyrsta og eins skotið hjá Darwin.

Rétt á eftir var ekki betur séð en Liverpool hefði átt að fá víti eftir að brotið var á Diogo en ekkert dæmt. Svo átti Conor Bradley skot sem markmaður heimamanna varði. Liverpool lék miklu betur en í fyrri hálfleik og réði lögum og lofum. 

Liverpool komst svo tveimur mörkum yfir á 70. mínútu. Aftur spilaði Liverpool vel fram völlinn. Darwin vann boltann og kom honum fram á varamanninn Cody Gakpo. Hann sendi fram á Diogo sem skoraði úr vítateignum í stöng og inn. Stórgóð sókn!

Níu mínútum seinna bætti Liverpool í. Darwin fékk boltann vinstra megin og gaf fyrir. Sendingin var of löng en Conor, sem átti fínasta leik, náði boltanum og sendi fyrir á Diogo. Portúgalinn kiksaði en var eldfljótur að átta sig og gerði aðra tilraun áður en heimamenn gátu áttað sig. Nú steinlá boltinn í markinu eftir gott skot Diogo úr vítateignum.

Átta mínútum var bætt við sem var undarlegt miðað við gang mála. Þegar þrjár mínútur voru liðnar af tímanum sem bætt var gaf Joe Gomez fyrir inn í markteiginn. Þar var Darwin staddur og stýrði boltanum í markið svo til liggjandi. Stórsigur í höfn í rigningu og strekkingi!

Liverpool spilaði ekki sérlega vel í fyrri hálfleik. En leikmenn Liverpool sýndu sitt rétta andlit eftir hlé, tóku öll völd og unnu stórsigur. Um meira verður ekki beðið þegar liðið leiðir deildina!

Bournemouth: Neto, Aarons, Zabarnyi, Mepham, Hill (Kelly 55. mín.), L. Cook (Billing 83. mín.), Christie, Tavernier, Kluivert (Brooks 69. mín.), Sinisterra (Scott 55. mín.) og Solanke (Moore 83. mín.). Ónotaðir varamenn: Marcondes, Kilkenny, Travers og Greenwood. 

Gult spjald: Lewis Cook.

Liverpool: Alisson, Bradley (Beck 83. mín.), Konaté, van Dijk, Gomez, Elliott (Gravenberch 64. mín.), Mac Allister, Jones (Clark 83. mín.), Díaz (Gakpo 64. mín.), Jota (Gordon 90. mín.) og Núnez. Ónotaðir varamenn: Adrián, Kelleher, McConnell og Quansah.

Mörk Liverpool: Darwin Núnez (49. og 90. mín.) og Diogo Jota (70. og 79. mín.).  

Gul spjöld: Conor Bradley og Darwin Núnez.

Áhorfendur á Dean Court: 11.228.

Maður leiksins: Diogo Jota. Portúgalinn skoraði tvö mörk og lagði upp eitt. Hann var að allan leikinn. Ekkert gekk upp hjá honum í fyrri hálfleik en hann hélt áfram að berjast og uppskar eftir því.  

Fróðleikur

- Darwin Núnez er kominn með tíu mörk á leiktíðinni.

- Hann er líka búinn að leggja upp tíu mörk.  

- Diogo Jota er búinn að skora 11 mörk það sem af er sparktíðarinnar.  

- Níu af 20 leikmönnum í liðshópi Liverpool hafa leikið með unglingaliðum félagsins. 

- Liverpool hefur að minnsta kosti skorað tvö mörk í 13 af síðustu 14 leikjum gegn Bournemouth.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan