| Sf. Gutt

Naumt skammtað nesti


Liverpool hefur naumt skammtað nesti með sér til London fyrir seinni undanúrslitaleik sinn við Fulham í Deildarbikarnum. Í kvöld vann Liverpool nauman 2:1 sigur á Fulham á Anfield Road. Sigur er þó alltaf sigur og í raun allt sem skiptir máli. Betra hefði þó verið að hann hefði verið stærri. 

Liverpool stillti upp sterku liði. Caoimhin Kelleher var í markinu eins og hann hefur jafnan verið. Virgil van Dijk vaar orðinn góður eftir að hafa verið veikur á sunnudaginn. Ungliðinn Conor Bradley kom inn í stöðu hægri bakvarðar vegna meiðsla Trent Alexander-Arnold. Að venju var fremstu mönnum víxlað.

Liverpool tók strax öll völd og Fulham komst varla fram fyrir miðju. Alla vega ekki fyrr en þeir skoruðu úr sinni fyrstu sókn! Á 19. mínútu náði vörn Liverpool ekki að hreinsa. Virgil mistókst að skalla frá og í framhaldinu fékk Willian boltann í vítateignum. Hann lék nær markinu og skorði svo með góðu skoti. Vel gert hjá þessum þrautreynda leikmanni sem ekki er af baki dottinn. 

Það var eins og leikmenn Liverpool væru slegnir út af vellinum við þetta. Það var ekki fyrr en á lokaandartökum hálfleiksins sem Liverpool ógnaði af einhverju viti þegar Joe Gomez átti fast skot rétt framhjá. Liverpool undir í hálfleik. 

Liverpool setti kraft í málið eftir hlé. Á 49. mínútu lék Ryan Gravenberch fram og komst framhjá varnarmanni. Hann tók svo skot sem fór rétt framhjá. Stuttu seinna komst Diogo Jota í skotstöðu í vítateignum en varnarmaður bjargaði á síðustu stundu. 

Jürgen Klopp ákvað að drífa í skiptingum og á 59. mínútu voru Cody Gakpo og Darwin Núnez sendir á vettvang í stað Harvey Eliott og Ryan Gravenberch. Innkoma þeirra félaga færði kraft í lið Liverpool sem nú herti tökin. Reyndar ógnaði Fulham næst þegar liðið náði skyndisókn. Bobby De Cordova-Reid komst fram hægra megin. Hann skaut úr frekar þröngri stöðu en  Coaimhin varði. Bobby hefði þó frekar átt að gefa fyrir á félaga sinn sem var vel staðsettur. 

Á 66. mínútu vildu leikmenn Liverpool fá víti eftir að leikmaður Fulham handlék boltann eftir aukaspyrnu. Í raun átti að dæma víti en það var ekki gert. Alexis Mac Allister átti svo skot sem Bernd Leno sló yfir. En á 68. mínútu var komið að marki. Darwin sendi á Curtis utan við vítateiginn. Hann lék nær áður en hann skaut að marki. Boltinn fór í bak varnarmanns og steinlá í markinu. Bernd átti ekki möguleika eftir að boltinn breytti um stefnu. Staðan orðin jöfn. 

Þremur mínútum seinna var staðan orðin enn betri. Diogo tók kröftuga rispu fram. Hann gaf á Darwin sem lék upp að endamörkum vinstra megin áður en hann gaf út í vítateiginn á Cody sem smellti boltanum í markið rétt utan við markteiginn. Leiknum snúið við!

Liverpool sótti af krafti það sem eftir var í von um að ná betri forystu fyrir seinni leikinn. Á 79. mínútu gaf Cody fyrir frá hægri. Hann hitti beint á Darwin sem skallaði fast að marki en Bernd varði vel. Darwin var aftur á ferðinni á 88. mínútu. Conor gaf fyrir markið á hann. Úrúgvæinn hitti boltann vel en Bernd náði að verja á ótrúlegan hátt. Liverpool náði ekki að skora annað mark svo nestið fyrir seinni leikinn er í minnsta lagi. En sigur var fyrir öllu!

Liveprool spilaði ekki vel í fyrri hálfleik. Það var ekki fyrr en eftir hlé sem liðið komst í gang. Liðið gefst ekki upp og sigur vannst. Þegar upp var staðið hefði Liverpol átt að vinna stærri sigur en það getur allt gerst í seinni leiknum í London.

Liverpool: Kelleher, Bradley, Konaté, van Dijk, Gomez, Gravenberch (Núnez 56. mín.), Mac Allister, Jones, Elliott (Gakpo 56. mín.), Jota og Díaz. Ónotaðir varamenn: Alisson, Clark, Gordon, McConnell, Beck, Quansah og Nyoni.

Mörk Liverpool: Curtis Jones (68. mín.) og Cody Gakpo (71. mín.).

Gul spjöld: Virgil van Dijk.

Fulham: Leno, Castagne, Tosin, Diop, Robinson, Reed (Lukic 83. mín.), J. Palhinha, De Cordova-Reid, Pereira (Cairney 72. mín.), Willian (Wilson 72. mín.) og Jiménez. Ónotaðir varamenn: Rodák, Tete, Ream, M. Carvalho, C. Vinícius og Francois.

Mark Fulham: Willian Borges da Silva (19. mín.).

Gul spjöld: Sasa Lukic og Harry Wilson. 

Áhorfendur á Anfield Road: 56.724.

Maður leiksins: Conor Bradley. Norður Írinn ungi var stórgóður í stöðu hægri bakvarðar. Bæði í vörn og sókn. 

Jürgen Klopp: ,,Þetta er ekki búið. Ég átti ekki von á því að við næðum það stórum sigri að við gætum pantað hótel. Vonandi byrjum við seinni leikinn betur. Við gátum ekki gert betur en að vinna leikinn. Ég er bara mjög hamingjusamur."

Fróðleikur

- Liverpool lék í 19. sinn í undanúrslitum Deildarbikarsins. Það er nýtt met í keppninni!

- Fulham spilaði í fyrsta sinn í undanúrslitum keppninnar. 

- Joe Gomez lék sinn 200. leik fyrir Liverpool. Hann hefur enn ekki skorað. 

- Curtis Jones skoraði í fjórða sinn á leiktíðinni. 

- Cody Gakpo skoraði níunda mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Owen Beck í í liðshópi Liverpool í fyrsta sinn á leiktíðinni. 

- Þetta var í sjöunda sinn það sem af er sparktíðinni sem Liverpool snýr tapstöðu í sigur. 

- Ekkert lið á Englandi hefur gert það jafn oft!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan