| Sf. Gutt

Endurtekið efni!


Það var endurtekið efni frá síðustu Deildarbikarviðureign Liverpool og Leicester City frá því fyrir tveimur árum. Liverpool fór áfram eftir 3:1 sigur á Anfield Road. Stórkostlegt mark var skorað sem á eftir að vera vistað í annálum Liverpool Football Club!

Að sjálfsögðu voru gerðar fjölmargar breytingar, tíu í allt, á liði Liverpool frá deildarleiknum um helgina. Liðið sem sent var til leiks, með Curtis Jones sem fyrirliða, var samt sterkt og nokkrir af sterkustu leikmönnunum voru til taks á bekknum. Leicester kom til Liverpool sem efsta liðið í næst efstu deild og hafði unnið alla nema einn af deildarleikjum sínum fram til þessa.

Enn einu sinni voru leikmenn Liverpool sofandalegir í upphafi leiks og eftir þrjár mínútur voru Refirnir komnir yfir. Ekkert óvænt í því! Leicester braut sókn Liverpool á bak aftur. Snögg sókn endaði með því að Yunus Akgun stakk boltanum inn fyrir hægra megn á Kasey McAteer. Hann lék inn í vítateiginn og renndi boltanum framhjá Caoimhin Kelleher og neðst út í fjærhornið. Vel útfærð sókn en leikmenn Liverpool mótmæltu vegna þess að þeir töldu að brotið hefði verið á Kostas Tsimikas í aðdraganda marksins. Hann lá eftir þegar sókn Leicester byrjaði. Sem betur fer var engin sjónvarpsdómgæsla í boði. Bara gamaldagsumræður um hugsanleg mistök dómara.

Þetta högg virtist ekki hafa nein áhrif á leikmenn Liverpool. Rétt á eftir lagði Ben Doak upp skotfæri fyrir Wataru Endo en skot Japanans við vítateiginn fór rétt framhjá. Ben var mjög sprækur á hægri kantinum og ekki varð betur séð en hann væri felldur eftir góða rispu en ekkert var dæmt. Ekkert hægt að skoða!

Enn var Ben ágengur og eftir horn átti hann þrumuskot af stuttu færi sem fór í þverslána og niður. Færið var heldur þröngt en Skotinn var óheppinn að skora ekki. Á 22. mínútu skall aftur hurð nærri hælum hjá Leicester. Cody Gakpo átti skalla eftir aukaspyrnu frá Kostas, en Conor Coady, fyrrum leikmaður Liverpool, bjargaði á línu. Vel gert hjá honum. Liverpool réði öllu þó svo að skyndisóknir Leicester sköpuðu stundum hættu. Gestirnir héldu sínum hlut fram að leikhléi. 

Liverpool hélt áfram að sækja þegar síðari hálfleikur hófst og staðan var orðin jöfn eftir þrjár mínútur. Ryan Gravenberch laumaði boltanum inn í vítateiginn á Cody Gakpo. Hann sneri sér snöggt við og skaut boltanum út í hægra hægra hornið. Góð samvinna hjá Hollendingunum!

Cody var aftur nærri því að skora á 57. mínútu. Hann átti þá skalla sem fór í slána og niður. Varnarmaður náði svo að bjarga á síðustu stundu í framhaldinu. 

Á 65. mínútu var Ben og Ryan skipt út fyrir þá Darwin Núnez og Dominik Szoboszlai. Fimm mínútum seinna skoraði Ungverjinn mark sem mun aldrei gleymast þeim sem til sáu. Wataru gaf á Dominik sem fékk boltann um 25 metra frá marki. Hann sneri sér í átt að marki Leicester, tók eitt skref og hamraði svo boltann upp í vinstri vinkilinn þversláin og inn! Stórfenglegt mark og eitt það fallegasta sem hefur sést á Anfield og þá er mikið sagt. Leikmenn Liverpool fögnuðu Dominik vel fyrir framan Kop stúkuna og sannarlega ástæða til!

Liverpool hélt öllum völdum áfram en það gat svo sem allt gerst fyrst aðeins var mark á milli liðanna. Mínútu fyrir leikslok gerði Liverpool endanlega út um leikinn. Harvey Elliott vann boltann á miðjum vallarhelmingi sínum. Boltinn gekk út til hægri á Jarell Quansah.  Unglingurinn tók rispu inn í vítateiginn og gaf fyrir markið á Diogo sem skoraði með fallegri hælspyrnu neðst í vinstra hornið rétt utan við markteiginn. Snilldarlegt mark hjá Portúgalanum og glæsilegur undirbúningur hjá Jarell sem átti mjög góðan leik. Á allra síðustu mínútuni náði leikmaður Leicester að bjarga á línu fá Harvey. Öruggur sigur og áframhald í keppninni. 

Enn og aftur lenti Liverpool undir en líkt og svo oft áður kom það ekki að sök. Þó svo að Liverpool hafi gengið ótrúlega vel að snúa leikjum sér í hag væri æskilegt að byrja leiki betur þannig að andstæðingarnir fái ekki svona oft forskot. Leikurinn verður samt alltaf í minnum hafður fyrir glæsimark Dominik! 

Liverpool: Kelleher, Jones (Bajcetic 79. mín.), Quansah, Konate, Tsimikas (Chambers 90. mín.); Elliott, Endo, Gravenberch (Szoboszlai 65. mín.); Jota, Gakpo og Doak (Nunez 65. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrian, van Dijk, Matip, Mac Allister og Diaz

Mörk Liverpool: Cody Gakpo (48. mín.), Dominik Szoboszlai (70. mín) og Diogo Jota (89. mín.).

Gult spjald: Wataru Endo.

Leicester City: Stolarczyk, Pereira, Souttar, Coady, Justin; Akgun (Fatawu 64. mín.), Choudhury, Casadei (Ndidi 57. mín.); Albrighton (Dewsbury-Hall 64. mín.), Iheanacho (Daka 64. mín.) og McAteer. Ónotaðir varamenn: Hermansen, Faes, Vestergaard, Ndidi, Winks og Mavididi.

Mark Leicester City: Kasey McAteer (3. mín.).  

Gul spjöld: Ricardo Pereira og Hamza Choudhury.

Áhorfendur á Anfield Road: 49.732.

Maður leiksins: Dominik Szoboszlai. Það voru aðrir betri en Ungverjinn en þetta stórfenglega mark hans var í þeim gæðaflokki að hann verður fyrir valinu  

Fróðleikur

- Þetta var 150. sigur Liverpool í Deildarbikarnum frá upphafi vega!

- Cody Gakpo og Dominik Szoboszlai skoruðu í annað sinn á leiktíðinni.  

- Diogo Jota skoraði þriðja maark sitt á sparktíðinni. 

- Liverpool skoraði þrjú mörk í fimmta leiknum í röð. 

- Liverpool mætti Leicester í Deildarbikarnum í annað sinn á þremur árum. Síðast komst Liverpol líka áfram eftir að hafa lent undir. Þá vann Liverpool keppnina. Vonandi veit það á titil að hafa rutt Leicester úr vegi! 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan