| Sf. Gutt

Harma að hefna!


Nú liggur fyrir að Liverpool og Real Madrid spila til úrslita um Evrópubikarinn í París. Mohamed Salah segir að Liverpool eigi harma að hefna frá úrslitaleik liðanna í Kiev 2018.



Eftir sigur Real Madrid á Manchester City í gærkvöldi setti Mohamed eftirfarandi færslu á Instagram og Twitter síður sínar. ,,Harma að hefna." Með þessum orðum vísar Mohamed í úrslitaleikinn 2018 þegar Liverpool tapaði 3:1 fyrir Real Madrid. Allt fór úrskeiðis sem mögulegt var fyrir Liverpool. Mohamed varð að fara meiddur af velli eftir fautalegt brot Segio Ramos strax í fyrri hálfleik og Loris Karius gerði  dýrkeypt mistök í markinu. 

Eftir sigur Liverpool í Villarreal í gærkvöldi svaraði Mohamed aðspurður, í viðtali eftir leik, því að hann langaði til að fá Real Madrid sem mótherja. ,,Ég vil fá Madrid í úrslitaleiknum. Þeir hafa unnið okkur í úrslitaleik svo það yrði upplagt að spila við þá aftur." 

Í kvöld fékk Mohamed verðlaun sem Knattspyrnumaður ársins 2022 valinn af blaðamönnum. Eftir afhendinguna var hann spurður í viðtali um þetta. ,,Já, það er tími til hefnda. Þeir unnu okkur í úrslitaleik síðast þegar við mættumst. Það voru geysileg vonbrigði fyrir okkur alla. En fyrst verðum við að einbeita okkur að Úrvalsdeildinni. Við og City eigum fjóra leiki eftir. Við vonum að þeir eigi eftir að tapa stigum. Spurs er næst á dagskrá og svo er bara að halda áfram."

,,Flestir okkar hafa verið saman núna í fimm ár og sumir lengur en í fimm ár. Við vitum hvað til þarf til að vinna sigra. Við reynum að gefa okkar allt. Við þurfum að einbeita okkur að hverjum einasta leik. Þetta sást vel í síðasta leik þegar við vorum 0:2 undir á útivelli en náðum að snúa leiknum okkur í vil og vinna. Svona er mjög mikilvægt fyrir hugarfarið okkar til næstu leikja. Okkar hugarfar miðar að því að við höfum trú á að við getum unnið alla tilta."

Það verður sannarlega spennandi þegar Liverpool og Real Madrid leiða saman hesta sína í París. Víst er að Mohamed Salah kemur ákveðinn í leiks!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan