| Grétar Magnússon

Landsleikir

Áfram höldum við að fara yfir gengi landsliðsmanna félagsins en nokkrir þeirra spiluðu á sunnudaginn.

Svisslendingar fengu Litháen í heimsókn og Xerdan Shaqiri var í byrjunarliði Sviss. Eftir aðeins tveggja mínútna leik hafði hann skorað fyrsta mark leiksins og reyndist það líka vera það eina í leiknum. Shaqiri og félagar hafa byrjað undankeppnina vel og eru með sex stig eftir fyrstu tvo leikina í C-riðli, ásamt Ítölum.

Í B-riðli mættu Spánverjar Georgíumönnum á útivelli og byrjaði Thiago á bekknum. Heimamenn komust yfir undir lok fyrri hálfleiks og staðan óvænt 1-0 í hálfleik. Spánverjar jöfnuðu á 53. mínútu og tveim mínútum síðar kom Thiago inná sem varamaður. Gestirnir náðu svo að skora sigurmarkið í uppbótartíma og var þar að verki Dani Olmo. Spánn hafa náð í fjögur stig í fyrstu tveim leikjunum.

Andy Robertson leiddi sína menn í Skotlandi til leiks á útivelli gegn Ísrael í F-riðli. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli og spilaði Robertson allan leikinn. Skotar hafa gert jafntefli í báðum leikjum sínum til þessa.

Á Evrópumóti U-21 árs landsliða sat Curtis Jones á bekknum þegar Englendingar mættu Portúgal. Hann kom inná á 72. mínútu leiksins en setti ekki mark sitt á leikinn að neinu ráði er Englendingar töpuðu 2-0. Enskir hafa tapað báðum leikjum sínum á mótinu til þessa.

Loks ber svo að nefna að Kostas Tsimikas sat á varamannabekknum allan tímann í vináttuleik Grikkja og Hondúras, sem endaði með 2-1 sigri Grikkja.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan