| Sf. Gutt

Ian St John látinn


Ian St John, fyrrum leikmaður Liverpool, er látinn. Hann er ein mesta hetja í sögu Liverpool og átti glæstan feril með félaginu. 

Ian fæddist í Motherwell á Skotlandi 7. júní 1938. Hann hóf atvinnumannaferil sinn með Motherwell 1957 og varð fljótlega einn besti leikmaður liðsins. Hann varð líka á skömmum tíma einn besti framherji Skota og lék sinn fyrsta landsleik 1959. Þar kom að ensk lið fóru að sýna Ian áhuga og Liverpool var meðal þeirra liða. Bill Shankly framkvæmdastjóri Liverpool, sem þá var í annarri deild, vissi allt um þennan magnaða sóknarmann og gerði kröfu um að hann yrði keyptur til félagsins. Stjórnarmenn Liverpool sögðu að félagið hefði ekki efni á Ian en Bill svaraði því til að félagið hefði ekki efni á að láta hann framhjá sér fara!


Svo fór að Liverpool keypti hann vorið 1961 fyrir 37.500 sterlingspund sem var hæsta upphæð sem Liverpool hafði borgað fyrir leikmann. Um sumarið keypti Liverpool skoska miðvörðinn Ron Yeats frá Dundee United. Þessir tveir leikmenn, sem eru á mynd hér að ofan, voru mennirnir sem vantaði til að gera Liverpool nógu gott lið til að vinna aðra deild með miklum yfirburðum á leiktíðinni 1961/62 og komast upp í efstu deild í fyrsta sinn frá 1954. Ian fór á kostum í sókninni og skoraði 22 mörk. Hann og Roger Hunt náðu mjög vel saman í framlínunni og röðuðu inn mörkum næstu árin. 


Liverpool festi sig í sessi í efstu deild á næstu leiktíð en keppnistímabilið 1963/64 gerði liðið sér lítið fyrir og varð  Englandsmeistari! Aftur skoraði Ian 22 mörk. Hann er þriðji frá vinstri í neðri röð á myndinni að ofan.  Bill Shankly var ekki að skafa utan af því þegar hann hrósaði Ian. ,,Ian St John er ekki bara góður sóknarmaður. Hann er eini sóknarmaðurinn sem vert er að tala um!"

Ian var nokkuð frá leik á leiktíðinni 1964/65 en hún átti eftir að verða mögnuð! Liverpool komst í úrslitaleik FA bikarsins í þriðja sinn í sögu félagsins en liðið hafði tapað úrslitaleikjum 1914 og 1950. Liverpool mætti Leeds United á Wembley 1. maí 1965. Ekkert var skorað í venjulegum leiktíma en í framlengingunni færðist fjör í leikinn. Roger Hunt kom Liverpool yfir snemma í framlengingunni. Hann skallaði þá í mark af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Gerry Byrne. Litlu síðar síðar jafnaði Billy Bremner með föstu skoti úr teignum. En leikmenn Liverpool náðu að herja fram sigur þegar níu mínútur voru til loka framlengingar. Ian Callaghan lék upp að endamörkum og sendi fyrir markið. Þar kastaði Ian St John sér fram og skallaði í markið. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu gríðarlega og fögnuðurinn varð enn meiri þegar dómarinn flautaði til leiksloka. Biðin var á enda! Liverpool hafði, undir stjórn Bill Shankly, loksins unnið F.A. bikarinn!


Markið hans Ian var þegar þarna var komið við sögu Liverpool orðið það frægasta í sögu félagsins! Margir telja markið ennþá það merkilegasta því það tryggði fyrsta sigur Liverpool í frægustu bikarkeppni í heimi! Myndin að ofan er af sigurliði Liverpool. Ian er þriðji frá hægri í efri röð. 

Eftir bikarúrslitaleikinn lék Liverpool til undanúrslita í Evrópukeppni meistaraliða við Inter Milan. Liverpool vann 3:1 á Anfield Road í fyrri leiknum sem er einn frægasti Evrópuleikur í sögu félagsins. Ian skoraði eitt marka Liverpool. Inter vann seinni leikinn 3:0 en tvö af mörkunum voru vafasöm svo ekki sé meira sagt. Bill Shankly var sannfærður um að dómara leiksins hefði verið mútað og hann var ekki einn um það. 

Liverpool hélt áfram á sömu braut leiktíðina 1965/66 og varð enskur meistari. Ian skoraði 12 mörk. Liverpool komst líka í úrslit Evópukeppni bikarhafa en tapaði 2:1 fyrir  Borussia Dortmund í leik sem Liverpool átti að vinna miðað við gang leiksins. Árin á eftir fór Ian að spila aðeins aftar á vellinum en hann var það snjall leikmaður að hann var áfram lykilmaður í liðinu. Keppnistímabilið 1970/71 var hans síðasta hjá Liverpool. Hann lék um tíma árið 1971 með Hellenic í Suður Afríku áður en hann gekk til liðs við Coventry City. Ian endaði svo ferilinn hjá Tranmere Rovers á leiktíðinni 1972/73 en vinur hans Ron Yeats var þá stjóri þar. 

Ian lék 425 leiki með Liverpool og skoraði 118 mörk. Auk Englandsmeistaratitlanna tveggja og bikartitilsins var Ian Skjaldarhafi árin 1965 og 1966. Ian lék 21 landsleik með Skotum og skoraði níu mörk. Mörgum fannst að hann hefði átt að spila miklu fleiri landsleiki. 

Eftir að Ian lagði skóna á hilluna var hann framkvæmdastjóri hjá gamla liðinu sínu Motherwell og svo hjá Portsmouth. Hann var loks aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Sheffield Wednesday og Coventry City. 

Eftir að Ian hætti þjálfun hóf hann störf í sjónvarpi og var í nokkur ár með vinsæla knattspyrnuþætti með Jimmy Greaves sem hétu Saint and Greavsie. Hann vann líka í útvarpi og kom líka af og til fram á Liverpool sjónvarpsstöðinni eftir að hún tók til starfa. Hann var líka oft á leikjum Liverpool og var vinsæll fulltrúi félagsins við hin ýmsu tækifæri. Ian greindist með krabbamein fyrir nokkrum árum og lést í gærkvöldi eftir að hafa verið lélegur til heilsu allra síðustu árin. 

Ian St John

Ian St John verður ætíð minnst sem eins besta og vinsælasta leikmanns Liverpool. Hann var fljótur, grimmur, fylginn sér og gaf ekki tommu eftir í baráttu við varnarmenn. Hann skoraði mikið og þá sérstaklega framan af ferli sínum með Liverpool og er nú 13. markahæsti leikmaður í sögu félagsins. Hann var einn af lykilmönnum í liðinu sem komst upp í efstu deild vorið 1965 og varð í framhaldinu besta lið Englands. Bill Shankly sagði að hann væri handviss um að þetta lið væri það besta sem hefði komið fram á Englandi frá Síðari heimsstyrjöldinni! 

Ian var líflegur á velli og náði vel til stuðningsmanna Liverpool sem dýrkuðu hann og gáfu honum viðurnefnið Dýrlingurinn, The Saint. Ástin var gagnkvæm af hálfu Dýrlingsins. ,,Stuðningsmennirnir eru mér allt. Þegar ég er kominn út á völlinn á laugardögum fyrir framan þá er ég tilbúinn að deyja fyrir þá!" Það var ekki að undra að stuðningmenn hrópuðu oft nafn hans á leikjum honum til heiðurs. St John! Þetta hróp bergmálaði oft á Anfield og ekki af ásæðulausu.   

Liverpool klúbburinn á Íslandi vottar fjölskyldu og vinum Ian St John samúð sína.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan