| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Okkar menn mæta Sheffield United á útivelli í kvöld, sunnudaginn 28. febrúar og verður flautað til leiks klukkan 19:15.

Eins og oft áður þarf að byrja á nafnakalli þeirra leikmanna sem geta mögulega spilað þennan leik. Jordan Henderson verður auðvitað frá keppni næstu vikurnar eins og þekkt er orðið og þessi leikur kemur væntanlega of snemma fyrir þá Fabinho, James Milner og Diogo Jota allir sneru aftur að fullu til æfinga í vikunni. Það má því fastlega gera ráð fyrir því að nýtt miðvarðapar líti dagsins ljós enn á ný á tímabilinu en Ozan Kabak byrjar væntanlega og hvort það verði Nat Phillips eða Ben Davies sem byrja verður að koma í ljós. Jürgen Klopp vildi ekkert segja til um hvort að Alisson verði í markinu en eins og flestir vita missti hann föður sinn í vikunni í hræðilegu slysi í Brasilíu. Kelleher er víst kominn til baka eftir fjarveru og ég býst við því að hann verði á milli stanganna í þessum leik. Miðjan verður væntanlega áfram skipuð þeim Wijnaldum, Thiago og Jones og fremstu þrír þeir sömu og vanalega. Sheffield menn eru í svipaðri stöðu og Liverpool varðandi meiðsli á tímabilinu og þeir verða án Chris Basham, Jayden Bogle, Sander Berge, John Egan, Jack O'Connell, Jack Robinson og Jack Rodwell. Furðulegt hvað allir virðast vera sammála um það hvað meiðsli Sheffield manna virðast vera ástæðan fyrir slæmu gengi liðsins á tímabilinu en öll meiðsli Liverpool manna eru að sama skapi ekki talin eins stór ástæða fyrir gengi liðsins.

En hvað sem því líður þá eru hér að mætast lið sem hafa verið í basli. Þau leiddu saman hesta sína fyrr á tímabilinu á Anfield þar sem okkar menn unnu 2-1 sigur eftir að hafa lent undir snemma leiks þegar vafasöm vítaspyrna var dæmd. Sheffield menn unnu ekki sinn fyrsta leik í deildinni fyrr en í janúar og hafa þeir náð í alls þrjá sigra það sem af er, þar af einn óvæntan sigur á Old Trafford. Ekki þarf að fjölyrða um gengi okkar manna síðan nýtt ár gekk í garð og ekki laust við að maður sé aðeins stressaður fyrir þessum leik, leikmenn liðsins virðast brotna við það að fá á sig mark og hafa enga trú á því að þeir geti komið til baka. Ef Sheffield skora fyrst verður fróðlegt að sjá hvernig viðbrögð okkar manna verða.

Við skulum samt ekki mála skrattann á veginn alveg strax. Spáin að þessu sinni er sú að 0-1 sigur vinnst í kvöld og það verður auðvitað kærkominn sigur. Torsóttur en kærkominn.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan