| Sf. Gutt

Af spjöldum sögunnar!


Einn afdrifaríkasti atburður í sögu Liverpool Football Club gerðist fyrir nákvæmlega 30 árum. Þann dag, 22. febrúar 1991, sagði Kenny Dalglish af sér sem framkvæmdastjóri Liverpool. Tilkynnt var um afsögnina á blaðamannafundi á Anfield. Kenny sagði af sér niðurbrotinn og uppgefinn eftir hið gríðarlega álag, sem fylgdi því að vera framkvæmdastjóri Liverpool, hafði bugað hann. Harmleikurinn á Hillsborough hafði einnig gríðarlega mikil áhrif á Kenny og hann fór til næstum því hverrar einustu jarðarfarar þeirra sem fórust.

Kenny varð að taka sér hvíld og það gerði hann af nauðsyn sjálfum sér til hjálpar og til að bjarga heilsu sinni. 
,,Allra síst vil ég skaða félagið og særa stuðningsmennina. Ef þeir eru vonsviknir þá er ég ennþá vonsviknari. Vera má að ég hafi yfirgefið Liverpool Football Club en Liverpool Football Club mun aldrei yfirgefa mig. Minningarnar og afrekin munu aldrei fara mér úr minni og ég verð alltaf stuðningsmaður Liverpool."


Nokkrum vikum eftir að Kenny sagði af sér var hann búinn að safna kröftum og tilbúinn í slaginn. En þá var búið að ráða Graeme Souness! Tæplega tveimur mánuðum áður en 20 ár voru liðin frá því hann yfirgaf Liverpool kom símtalið sem Kenny var búinn að bíða eftir í 20 ár eða svo. John Henry, eigandi Liverpool, hringdi í hann og spurði hvort hann væri tilbúinn að stjórna Liverpool út keppnistímabilið! Kenny þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um og þann 8. janúar 2011 var hann orðinn framkvæmdastjóri Liverpool á nýjan leik! ,,Fyrir mig þá var það sorgardagur þegar ég yfirgaf félagið en það var sannkallaður hamingjudagur þegar ég kom aftur." 


Kenny Dalglish stýrði Liverpool til vorsins 2012 en þá ákváðu eigendur Liverpool að skipta um framkvæmdastjóra og Brendan Rodgers tók við. Kenny stýrði Liverpool til sigurs í Deildarbikarnum á leiktíðinni 2011/12. En fyrir utan þann titil má segja að mesta frek hans á seinni stjórnartíð hans hjá Liverpool hafi verið að sameina félagið og stuðningsmenn þess á nýjan leik eftir erfið ár á undan. Segja má að Liverpool Football Club búi enn að því!




Það verður aldrei úr því skorið hversu mikil áhrif það hafði á sögu Liverpool að Kenny Dalglish þurfti að segja af sér störfum í febrúar 1991. Þá var Liverpool ríkjandi Englandsmeistari og efst í deildinni. Það var ekki fyrr en á keppnistímabilinu 2019/20 sem Liverpool tókst að vinna Englandsmeistaratitilinn á nýjan leik. Á fallegu sumarkvöldi krýndi Kenny Dalglish Liverpool sem meistara með því að afhenda verðlaunapeninga og loks færði hann Englandsbikarinn í hendur Jordan Henderson fyrirliða Liverpool. Allt var fullkomnað!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan