| Sf. Gutt

Til hamingju!


Þann 20. febrúar 1971 fæddist besti knattspyrnumaður Finnlands fyrr og síðar. Hann lék með Liverpool en þó styttra en reiknað var með. 

Jari Olavi Litmanen fæddist í Lahti í Finnlandi. Hann hóf atvinnumannaferil sinn 1987 með Reipas en þar hafði faðir hans spilað. Það kom ekki á óvart að hann skyldi verða atvinnumaður því bæði pabbi hans og mamma léku knattspyrnu. Pabbi hans spilaði líka með finnska landsliðinu. Jari gerði það fyrst 1989 og síðasta landsleikinn lék hann 39 ára gamall árið 2010. Hann lék 137 landsleiki og skoraði 32 mörk. Hvorutveggja er met í Finnlandi. 

Jari lék með HJK og MyPa áður en hann fór til Ajax 1992. Með PyPa vann hann sinn fyrsta titil 1992 þegar hann varð finnskur bikarmeistari. Hjá Ajax skapaði hann sér nafn sem einn besti leikmaður Evrópu og vann fjölda titla. Árið 1999 gekk Jari til liðs við Barcelona. Hann náði sér ekki alveg á strik þar og fór eftir eina og hálfa sparktíð til Liverpool. Það var draumafélagið hans því hann hafði haldið með Liverpool frá því hann var lítill. 

Jari Litmanen

Jari Litmanen lék eitt og hálft tímabil með Liverpool. Það var búist við miklu af honum þegar hann kom til Liverpool en meiðsli settu strik í reikninginn hjá Finnanum og hann var ekki jafn góður og vonast var til. Reyndar vakti það nokkra furðu sumra að Gérard Houllier notaði finnska meistarann lítið á köflum en hann hafði þó fengið hann til félagsins.

Sumarið 2002 bætti Jari þó í verðlaunasafn sitt með því að vera í liðshópi Liverpool þegar Góðgerðarskjöldurinn og Stórbikar Evrópu komu í hús. Hann kom þó ekki inn á í leikjunum við Manchester United og Bayern Munchen þegar titlarnir unnust. Jari fór frá Liverpool 2002 eftir að hafa spilað 43 leiki og skora níu mörk. Þó svo að dvölin hjá Liverpool hafi verið ákveðin vonbrigði þá náði Jari að uppfylla æskudraum sinn.

Leiðin lá aftur til Ajax þar sem hann varð hollenskur meistari 2004 og var það fimmti landstitill hans í Hollandi. Jari fór svo heim til Finnlands sama ár þar sem hann lék með heimaliði sínu Lahti, svo Hansa Rostock í Þýskalandi og sænska liðinu Malmö FF. Leiktíðina 2007/08 var hann um tíma hjá Fulham en hann spilaði ekkert þar. Hann fór aftur til Lahti 2008 og lék þar til 2010. Jari endaði svo ferilinn hjá fyrrum félagi sínu HJK 2011. Þar varð hann, fertugur, finnskur meistari og bikarmeistari. Magnaður endir á glæstum ferli. 

Það er ekki vafi á því að Jari var einn besti leikmaður Evrópu þegar hann var upp á sitt besta. Þó svo hann næði sér ekki á strik með Liverpool var hann vinsæll hjá stuðningsmönnum liðsins enda fóru hæfileikar hans ekkert á milli mála.

Liverpool klúbburinn á Íslandi óskar Jari Litmanen til hamingju með stórafmælið!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan