| Heimir Eyvindarson

Stöndum saman

Það gengur illa hjá liðinu okkar þessa dagana. Það eru ýmsar skýringar á því, fyrst og fremst meiðsli lykilmanna en hugsanlega er eitthvað meira og stærra að. 


Það var auðvitað vitað mál þegar Jordan Pickford tæklaði okkar besta varnarmenn úr leik strax í fimmtu umferð Úrvalsdeildarinnar, að líkurnar á því að Liverpool tækist að verja Englandsmeistaratitilinn væru hverfandi. Ekki batnaði ástandið þremur vikum síðar þegar Joe Gomez datt út eftir dvöl með enska landsliðinu. Joel Matip, sem er hvort sem er einhvernveginn alltaf meiddur datt svo endanlega út núna í lok janúar þannig að þá var í alvörunni enginn alvöru miðvörður eftir í hópnum. Það er alveg sama hvernig við reynum að ræða þetta og rakka Klopp og FSG niður, það myndi ekkert lið vinna deildina við þessar aðstæður.
Þrátt fyrir allt vorum við á toppnum meira og minna fram til 4. jan., þegar við töpuðum fyrir Southampton með sirkusmarki frá Danny Ings. Þegar þetta er skrifað getum við líklega slegið því föstu að Manchester City vinni deildina, en við erum aðeins sex stigum frá 2. sætinu þannig að veröldin er nú ekki alveg hrunin til grunna ennþá þótt ansi háværar raddir séu uppi um það víðsvegar um internetið. 

Ég hafði orð á því í desember, m.a. í ritstjórapistli í jólablaði Rauða Hersins, að við mættum ekki láta VAR mótlætið fara um of í taugarnar á okkur. Ég lýsti áhyggjum mínum af því að Klopp væri orðinn óþægilega bitur og aðeins of mikið fórnarlamb í viðtölum. Svolítið að tapa gleðinni. Ég held því miður að líðan og tjáning stjórans sem ég elska og dái hafi á þeim tíma ekki gert liðinu gott. Hvað var að angra hann veit ég ekkert um, en ævintýraleg vanhæfni Englendinga í VAR fræðunum var væntanlega ekki það eina. Kannski voru það veikindi móður hans sem nú er nýlátin og kannski eitthvað allt annað. Hvað veit maður. 

Það breytir því ekki að við eigum einn allra besta stjóra í heimi og meðan hann er við stjórnvölinn þá er það skylda okkar stuðningsmanna að standa þétt við bakið á liðinu og styðja það í blíðu og stríðu. Auðvitað má gagnrýna eitt og annað, en Klopp Out, andlegt gjaldþrot og svoleiðis sleggjudómar eru engum til sóma á tímabili sem hefur þróast með sömu ólíkindum og þetta. Það er búið að fjarlægja hryggjarsúluna í vörninni sem býr til í óöryggi út um allan völl, ég held að Klopp hafi stillt upp 16. miðvarðaparinu á tímabilinu í leiknum gegn Leicester, helmingurinn af því var Ozan Kabak sem kom í lok janúar og fékk erfiða eldskírn. Það er til marks um umræðu stuðningsmanna Liverpool á netmiðlum að margir þeirra vilja aldrei sjá hann í Liverpool búningi aftur! Nú verðum við að hætta að láta eins og fávitar á Facebook kæru vinir. Svona komment eru engum sönnum Liverpool aðdáanda til sóma. 
Gleymum þvi heldur ekki að vð erum ennþá með í Meistaradeildinni og eigum nákvæmlega jafn stóran sjéns á því að standa uppi sem sigurvegarar þar eins og hin liðin. Það væri gríðarlega ánægjuleg sárabót að fagna sigri í bestu keppni heims í vor, í annað sinn á þremur árum. Spennandi að sjá hvað Klopp Out gengið segir þá. 

Að öllum dagdraumum slepptum þá er raunhæfur möguleiki að Liverpool vinni Meistaradeildina í vor og endi í 2. sæti í deildinni. Verði það niðurstaðan verður það að teljast ótrúlega magnaður árangur eftir allt það sem á undan er gengið. Ég ætla að trúa því að tímabilið endi eins vel og mögulegt er úr þessu. Ef það endar einhvernveginn öðruvísi þá tek ég því og byrja að hlakka til næstu leiktíðar undir stjórn Klopp. 

YNWA!

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan