| Sf. Gutt

Til hamingju!


Kevin Keegan, fyrrum leikmaður Liverpool, á stórafmæli í dag. Hann er með allra bestu leikmönnum Liverpool í sögu félagsins.


Kevin fæddist í  Armthorpe í Doncaster 14. febrúar 1951. Hann er því sjötugur í dag. Hann hóf feril sinn með Scunthorpe United og lék með liðinu frá 1969 til 1971 en þá keypti Liverpool hann fyrir 33.000 sterlingspund. 


Á næstu árum varð Kevin lykilmaður í Liverpool og reyndar besti maður liðsins. Hann varð Englandsmeistari 1972/73, 1975/76 og 1976/77. Leiktíðirnar 1972/73 og 1975/76 vann Liverpool líka Evrópukeppni félagsliða.


Á keppnistímabilinu 1973/74 vann Liverpool FA bikarinn. Liverpool vann Newcastle United 3:0 í úrslitaleiknum og skoraði Kevin tvö mörk. Steve Heighway skoraði eitt. Kevin vann Góðgerðarskjöldinn 1974 og aftur 1976.Blaðamenn kusu Kevin Knattspyrnumann ársins fyrir keppnistímabilið 1975/76.


Síðasti leikur Kevin með Liverpool var í Róm. Liverpool mætti þá Borussia Moenchengladbach í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn. Liverpool vann 3:1 og Kevin átti stórleik. Kevin lék 323 leiki með Liverpool og skoraði 100 mörk. 


Kevin gekk til liðs við þýska liðið Hamburger Sport Verein sumarið 1977. Hann varð þýskur meistari leiktíðina 1978/79. Árin í Hamborg voru mjög góð og Kevin var kjörinn Knattspyrnumaður ársins 1978 og 1979.

Kevin sneri svo heim til Englands 1980 og gekk til liðs við Southampton. Hann lék tvö keppnistímabil þar og var kjörinn Leikmaður ársins fyrir seinna keppnistímabilið. Kevin fór til Newcastle United sumarið 1982. Liðið var þá í næst efstu deild en Kevin átti stóran þátt í að koma liðinu upp í efstu deild vorið 1984 og þá lagði hann skóna á hilluna. Hann lék reyndar tvo leiki með ástralska liðinu Blacktown City árið 1985.

Kevin Keegan var lykilmaður í enska landsliðinu á sínum bestu árum. Hann lék 63 landsleiki og skoraði 21 mark. 

Kevin hóf framkvæmdastjóraferil sinn hjá Newcastle United í febrúar 1992 og var þar til 1997. Hann tók við liðinu í næst efstu deild og kom því upp með glæsibrag vorið 1993. Kevin byggði upp frábært lið hjá Newcastle. Hann tók næst við Fulham og stýrði liðinu leiktíðina 1998/1999. Liðið var í þriðju efstu deild þegar hann tók við því og hann kom því upp um deild. Snemma árs 1999 tók Kevin við enska landsliðinu. Hann stýrði liðinu í rúmt ár og kom því í úrslitakeppni EM 2000.


Vorið 2001 tók Kevin við stjórn Manchester City. Liðið var þá í næst efstu deild en Kevin kom því upp í fyrstu tilraun. Hann lét af störfum hjá City 2005. Snemma árs 2008 tók Kevin við Newcastle United í annað sinn. Hann stýrði liðinu til vors og fyrstu leikjunum á leiktíðinni 2008/09 en sagði þá af sér. 

Kevin Keegan hefur stundum starfað sem sparkspekingur í sjónvarpi eftir að hann hætti framkvæmdastjórn. Hann hefur lítt verið í sviðsljósinu síðustu árin. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan