| Grétar Magnússon

Tap

Lengi getur vont versnað. Burnley mætti á Anfield og endaði sigurgöngu Liverpool á heimavelli með 0-1 sigri. Áfram gengur þeim rauðu bölvanlega uppvið markið.

Jürgen Klopp gerði nokkrar breytingar á byrjunarliðinu. Joel Matip kom inn eins og við var að búast og sömuleiðis mátti alveg reikna með því að einn leikmaður væri frá vegna meiðsla, að þessu sinni var það Jordan Henderson, að öðru leyti var vörnin óbreytt frá síðasta leik. Á miðjunni fékk Alex Oxlade-Chamberlain að byrja ásamt Thiago og Gini Wijnaldum. Mohamed Salah og Roberto Firmino settust á bekkinn og stöðu þeirra tóku Divock Origi og Xerdan Shaqiri.

Ég held við þurfum ekkert að skrifa mikið um gang leiksins því leikir liðsins þessa dagana eru allir að spilast eins. Divock Origi fékk besta færi leiksins þegar hann slapp einn í gegn eftir mistök Ben Mee en auðvitað þurfti hann að skjóta í þverslá og Nick Pope náði svo að handsama boltann. Bölvanlega gengur uppvið mark andstæðinganna og fjölmörg skot voru blokkuð af varnarmönnum eða enduðu hjá Pope í markinu.


Eina mark leiksins kom í seinni hálfleik þegar Alisson braut á Ashley Barnes í teignum, hann tók spyrnuna sjálfur og skoraði. Þetta var seint í leiknum og auðvitað náðu okkar menn ekki að svara með marki eða mörkum. Lokatölur 0-1.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Matip, Fabinho, Robertson, Shaqiri (Minamino, 84. mín.), Thiago, Wijnaldum, Oxlade-Chamberlain (Firmino, 57. mín.), Origi (Salah, 57. mín.), Mané. Ónotaðir varamenn: Kelleher, N. Williams, Phillips, Tsimikas, Milner, Jones.

Gul spjöld: Matip og Fabinho.

Burnley: Pope, Lowton, Tarkowski, Mee, Taylor (Pieters, 50. mín.), Brady (Guðmundsson, 65. mín.), Westwood, Brownhill, McNeil, Wood, Barnes. Ónotaðir varamenn: Peacock-Farrell, Cork, Stephens, Rodriguez, Bardsley, Vydra, Long.

Mark Burnley: Ashley Barnes (83. mín. (víti)).

Gult spjald: Barnes.

Maður leiksins: Látum það eiga sig að þessu sinni. Menn eru virkilega að reyna en það gengur bara ekkert upp.

Jürgen Klopp: ,,Þetta er ekki besti tími okkar hvað heppni varðar, klárlega ekki. En ég held að það væri frekar ódýrt að setja þetta alltsaman á heppni. Ég held að vandamál okkar sé ákvarðanataka á ákveðnum stundum. Það er ekki gaman að nefna það núna en við höfum unnið leiki þar sem við höfum verið minna með boltan en í kvöld, fengið færri færi en við fengum í kvöld. Við unnum ekki leikinn vegna þess að við skoruðum ekki þegar við höfðum tækifæri til þess."

Fróðleikur:

- Í fyrsta sinn síðan í maí árið 2000 hafa okkar menn ekki skorað í fjórum deildarleikjum í röð.

- Í fyrsta sinn síðan í janúar-febrúar 2017 nær liðið ekki sigri fimm leiki í röð.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan