| Grétar Magnússon

Liverpool - Burnley

Næsti leikur er gegn Burnley á Anfield og verður flautað til leiks klukkan 20:00 í kvöld, fimmtudagskvöldið 21. janúar.

Það er bæði gott og slæmt að stutt er á milli leikja núna. Það er hægt að vona að liðið hrökkvi loksins í gírinn strax í næsta leik en að sama skapi er það alveg jafn pirrandi að horfa á leiki um þessar mundir þegar lítið sem ekkert gengur upp við mark andstæðinganna. Burnley eru þekktir fyrir lítið annað en að spila þéttan varnarleik og heilt yfir er líkstíll þeirra þannig að þeir eru fastir fyrir og finnst fátt skemmtilegra en að láta andstæðingana finna svolítið fyrir sér. Það er því ekki hægt að segja að maður sé bjartsýnn á að flóðgáttirnar opnist í kvöld en einhverntímann hljóta leikmenn Liverpool að fara að nýta færin og vera klókari á síðasta þriðjungi vallarins.

Jürgen Klopp sagði á blaðamannafundi fyrir leik að Joel Matip sé klár í slaginn og er það vel. Um leið fara vangaveltur í gang um hvernig vörninni verður stillt upp. Spurningin er sú hvort að hann spili jafnvel með Nat Phillips í vörninni líka enda veitir ekki af stórum og stæðilegum varnarmanni til að verjast háum boltum og föstum leikatriðum gestanna. Þá gæti jafnvel verið séns að Fabinho og Henderson spili í sínum réttu stöðum á miðjunni en ég giska á að Fabinho verði áfram í vörninni og að fyrirliðinn tylli sér á miðjuna. Einnig má velta fyrir sér hvort að tími sé kominn á að brjóta upp fremstu þrjá og gefa jafnvel Minamino tækifæri. Í sannleika sagt efast ég um að Japaninn byrji því hlutverk hans væri ekki öfundsvert í kringum þessa turna og tudda í Burnley vörninni. Firmino er betur til þess fallinn að berjast við þá. Annars spái ég því að liðið verði svona í kvöld, við sjáum mynd:


Sean Dyche, stjóri Burnley, hefur úr öllum sínum leikmönnum að velja fyrir utan varamarkvörðinn Bailey Peacock-Farrell og hann getur því stillt upp sínu allra sterkasta liði. Burnley hafa rétt aðeins úr kútnum eftir slaka byrjun á tímabilinu þar sem þeir voru í fallsæti lengi framan af. Liðið er farið að sýna sitt rétta andlit í spilamennsku og úrslitum sem sjá má á úrslitum síðustu leikja hjá þeim, allir hafa endað 1-0, þrír með tapi og einn með sigri. Við vitum alveg hvað er að fara að gerast í leik kvöldsins, Liverpool með boltann og stóra spurningin er hvort þeim takist að spila almennilega til að koma boltanum í markið. Stutt yfirlit yfir sögu liðanna á Anfield er á það leið að okkar menn hafa unnið fjóra og tveir hafa endað með 1-1 jafntefli.

Spáin að þessu sinni er sú að það tekst að troða tuðrunni einu sinni yfir línuna og það dugar til sigurs. 1-0 verða lokatölur og ég spái því að enginn annar en Trent Alexander-Arnold skori markið. Það bara hlýtur að koma að því að okkar menn vinni leik !

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur leikmanna liðsins í deild með 13 mörk.

- Chris Wood er markahæstur Burnley manna með þrjú mörk.

- Liverpool situr í 4. sæti deildarinnar með 34 stig eftir 18 leiki.

- Burnley eru í 17. sæti með 16 stig eftir 17 leiki.




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan