| Sf. Gutt

Til hamingju!


Peter Beardsley, fyrrum leikmaður Liverpool, á stórafmæli í dag. Peter fæddist í Hexham á norður Englandi 18. janúar 1961 og er því sextugur. 

Peter var með allra bestu leikmönnum Liverpool í þau fjögur keppnistímabil sem hann var leikmaður félagsins. Liverpool keypti hann sumarið 1987 frá Newcastle United 1,9 milljón sterlingspunda sem var hæsta upphæð sem breskur leikmaður hafði þá verið keyptur fyrir. Hann og þeir nafnar John Aldridge og Barnes skipuðu magnaða framlínu leiktíðina 1987/88. Liverpool varð Englandsmeistari með yfirburðum en tapaði úrslitaleik um FA bikarinn vorið 1988 fyrir 1:0 Wimbledon. Peter skoraði lögleg mark í leiknum þegar staðan var markalaus. Peter skoraði 18 mörk í öllum keppnum.

Keppnistímabilið 1988/89 vann Liverpool FA bikarinn eftir eftirminnilegan 3:2 sigur á Everton en missti af Englandsmeistaratitlinum í síðasta leik. Á leiktíðinni 1989/90 varð Peter Englandsmeistari í annað sinn. Hann skoraði 16 mörk og lék lykilhlutverk. Peter gekk ekki jafn vel á síðustu leiktíð sinni með Liverpool 1990/91 og var ekki alltaf fastamaður. 

Peter varð Skjaldarhafi 1988, 1989 og 1990. Hann skoraði einmitt eina mark leiksins þegar Liverpool vann Arsenal í Skjaldarleiknum 1989. Peter spilaði 175 leiki með Liverpool og skoraði 59 mörk. Hann var valinn í Lið árins í efstu deild þrjú ár í röð 1988, 1989 og 1990. Þegar hann spilaði með Newcastle var hann komst hann í Lið árins fyrir keppnistímabilið 1993/94. 

Sumarið 1991 seldi Liverpool Peter til Everton og þótti sú ákvörðun Graeme Souness mjög vanhugsuð. Sáu stuðningsmenn Liverpool mikið eftir honum. Peter lék aðeins í tvær leiktíðir með Everton en fór þá aftur heim til Newcastle. Litlu munaði að hann yrði Englandsmeistari þar. Hann spilaði svo með Bolton, Fulham, var í láni hjá Manchester City og endaði svo feril sinn á Englandi með Hartlepool United. Allra síðustu leiki sína spilaði hann með Melbourne Knights í Ástralíu. 

Annars hóf Peter Beardsley atvinnumannaferil sinn hjá Carlisle United á leiktíðinni 1979/80 en hann var sem strákur hjá Newcastle United. Hann lék svo um tíma með kanadíska liðinu Vancouver Whitecaps áður en hann fór til Manchester United. Þar lék hann einn leik á leiktíðinni 1982/83 áður en hann fór heim til Newcastle United 1983 en þar á bæ höfðu menn ekki viljað gera samning við hann nokkrum árum áður. Hann var frábær hjá Newcastle og var í liðinu sem komst upp í efstu deild undir stjórn Kevin Keegan. Liverpool keypti hann svo fyrir metfé 1987 eins og áður segir. 

Peter starfaði við þjálfun hjá Newcastle í nokkur ár en var látinn fara þaðan eftir að ásakanir komu fram um að hann hefði komið harkalega fram við yngri leikmenn. Hann var um tíma í þjálfaraliði enska landsliðsins. Peter lék á sínum tíma 59 landsleiki og skoraði níu mörk. 

Peter var frábær framherji og skapandi leikmaður. Eldsnöggur, skoraði drjúgt og lagði líka upp mörk. Margir stuðningsmenn Liverpool hafa nefnt hann sem uppáhaldsleikmann sinn í liðinu þá. 

Við óskum Peter Bearsley til hamingju með stórafmælið!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan