| Sf. Gutt

Áfram í FA bikarnum


Liverpool komst áfram í FA bikarnum í kvöld eftir öruggan 1:4 sigur á Aston Villa á Villa Park. Heimamenn neyddust til að stilla upp unglingaliði sínu vegna þess að heimsfaraldurinn hafði bankað upp á hjá aðalliðshópnum með þeim afleiðingum að allt aðalliðið var sent í sóttkví. Reyndar stóðu unglingar Villa sig frábærlega í leiknum. 

Jürgen Klopp hefur oft stillt upp veikara liði í FA bikarnum eftir að hann tók við Liverpool en núna var liðið í sterkara lagi. Samt voru gerðar einar sex breytingar frá tapleiknum í Southampton. Enginn úr byrjunarliði Aston Villa hafði áður spilað með aðalliði félagsins. Núna hafði allt snúist við frá því að liðin mættust á Villa Park í Deildarbikarnum á síðustu leiktíð þegar Liverpool neyddist til að tefla fram unglingaliði sínu vegna þess að aðalliðið var að spila í Heimsmeistarakeppni félagsliða. Nú var Aston Villa í sömu stöðu!

Leikurinn hófst eins og við var búist. Boltinn lá í marki Villa eftir fjórar mínútur. Curtis Jones gaf fyrir frá hægri og Sadio Mané skoraði örugglega með skalla. Um sex mínútum seinna lyfti Georginio Wijnaldum boltanum yfir mark Villa í góðu færi í vítateignum. Rétt fyrir miðjan hálfleik átti Fabinho Tavarez fast skot úr vítateignum sem Akos Onodi varði með tilþrifum. Hann hélt ekki boltanum og Sadio Mané náði frákastinu. Sadio skaut að marki en Akos varði aftur. Frábærlega gert hjá markverðinum unga. 

Liverpool hafði mikla yfirburði en liðið spilaði samt ekki vel frekar en í síðustu þremur deildarleikjum. Heimamenn komust óvænt inn í leikinn á 41. mínútu. Falleg sókn sem hófst hjá Akos í markinu endaði með stungusendingu á Louie Barry. Rhys Williams missti Louie inn fyrir sig og hann komst fram að vítateignum þaðan sem hann skoraði örugglega framhjá Caoimhin Kelleher. Ungu leikmenn Villa fögnuðu tryllingslega enda búnir að jafna á móti Englandsmeisturunum. Hálfleikurinn endaði á því að Akos varði vel frá Curtis. Jafnt í hálfleik og líklega hefði enginn spáð því!

Thiago Alcantara kom inn á í hálfleik fyrir Jordan Henderson og leikur Liverpool batnaði strax til muna. Liverpool sótti linnulaust og af meiri krafti og snerpu. Aston Villa komst varla fram fyrir miðju enda voru unglingarnir orðnir mjög þreyttir. Liverpool komst þó ekki yfir fyrr en á 60. mínútu.  Georginio skoraði þá með nákvæmu skoti neðst í hægra hornið frá vítateigslínunni. Tveimur mínútum seinna sendi varamaðurinn Xherdan Shaqiri fyrir markið á Sadio sem skallaði yfir markmann Villa og í markið. 

Enn liðu tvær mínútur. Xherdan gaf á Moahmed Salah sem sneri sér við í vítateignum og skoraði neðst í bláhornið hægra megin. Þrjú mörk á fimm mínútum. Áframhald Liverpol var tryggt og lítið gerðist til loka leiksins nema hvað Thiago átti skot í slá þegar fimm mínútur voru eftir. Liverpool heldur áfram í FA bikarnum og nú er að sjá hversu langt liðið kemst á þessari leiktíð. FA bikarinn hefur ekki unnist frá því 2006 og tími til kominn að færa hann aftur heim á Anfield!

Aston Villa: Onodi; Walker (E Rowe 75. mín.), Revan, Bridge, C Rowe (Swinkels 75. mín.); Hayden, Raikhy (Sohna 65. mín.), Sylla, Bogarde (Lindley 65. mín.), Chrisene (Young 61. mín.) og Barry. Ónotaðir varamenn: Zych, Tait, Ealing og Hart.

Mark Aston Villa: Louie Barry (41. mín.).

Liverpool: Kelleher; N Williams, R Williams, Fabinho, Milner; Jones (Shaqiri 61. mín.), Henderson (Thiago 45. mín.), Wijnaldum; Salah (Origi 73. mín.), Mané (Oxlade-Chamberlain 73. mín.) og Minamino (Firmino 61. mín.). Ónotaðir varamenn: Alisson, Robertson, Phillips og Alexander-Arnold.

Mörk Liverpool: Sadio Mané (4. og 63. mín.), Georginio Wijnaldum (60. mín.) og Mohamed Salah (65. mín.).

Gult spjald: Curtis Jones. 

Maður leiksins: Thiago Alcantara. Það var mikill munur á leik Liverpool eftir leikhlé og innkoma Thiago hafði mikið að segja í því. Nú er að vona að hann haldist heill til loka leiktíðarinnar. 

Jürgen Klopp: Strákarnir stóðu sig virkilega vel. Piltarnir sem spiluðu fyrir hönd Aston Villa stóðu sig sérstaklega vel. Við spiluðum stórvel í síðari hálfleik og þess vegna unnum við. Reyndar hefðum við átt að spila svoleiðis allan leikinn.

Fróðleikur.

- Sadio Mané er nú búinn að skora níu mörk á leiktíðinni. 

- Seinna mark hans var 90. mark hans fyrir Liverpool. 

- Georginio  Wijnaldum skoraði annað mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Mohamed Salah skoraði 17. mark sitt á sparktíðinni. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan