| HI

„Minamino leit vel út á æfingum“

Jürgen Klopp útskýrði breytingarnar á framlínunni í leiknum gegn Crystal Palace bæði með hefðbundinni hreyfingu á liðinu og frammistöðu á æfingum. Aðeins voru rúmir tveir sólarhringar milli leikja þar sem leikurinn við Tottenham var á miðvikudagskvöldi og svo næst leikur í hádeginu á laugardegi - nokkuð sem Klopp hefur gagnrýnt. En í það minnsta voru bæði liðin í sömu stöðu núna.

En hann útskýrði fyrst ástæðuna fyrir því að Salah var á bekknum. „Þetta er í fyrsta sinn í nokkurn tíma sem við fengum tækifæri til að gera eitthvað slíkt. Við þurftum ferska fætur í dag. Joel (Matip) gat spilað, Naby (Keita) gat spilað og síðan þurftum við að hugsa hvernig við hefðum framlínuna.

Mo (Salah) hafði aðeins misst af sjö mínútum í síðustu fjórum leikjum sem margir hverjir voru erfiðir. Svo það var ljóst að hann yrði hvíldur. Leikirnir við Crystal Palace hafa oft verið spennandi og jafnir þannig að mér fannst það góð hugmynd að setja hann inn á síðasta hálftímann. Við gerðum það, en þá voru aðstæður kannski aðrar en ég hafði búist við fyrirfram.“

Í hans stað setti Klopp Takumi Minamino í sóknarlínuna og hann þakkaði traustið með því að skora sitt fyrsta mark í ensku úrvalsdeildinni eftir rúmar tvær mínútur. „Við vildum nota Taki. Við spilum þannig að ef menn spila á miðjunni þurfa menn að geta sótt fram á við og þess vegna getur Taki spilað þar. Hann hefur gert það tvisvar með fínum árangri, en það sem skiptir meira máli er að hann hefur verið mjög beittur á æfingum og virkað í góðu formi. Þess vegna var hann í baráttunni um sæti í byrjunarliðinu.

Hann var frábær í leiknum og kláraði markið vel. Hann er í fínu standi núna svo að við verðum að nota hann. Ég sá hann í búningsklefanum eftir leikinn og brosið á andlitinu sást langar leiðir.“

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan