| Sf. Gutt

Sterkur sigur!


Liverpool vann í kvöld sterkan 3:0 sigur á Leicester City á Anfield Road. Með sigrinum var nýtt og glæsilegt félagsmet staðfest. Liverpool hefur nú leikið 64 deildarleiki í röð á Anfield án þess að lúta í gras!

Verkefnið var erfitt því Leicester City var á toppnum fyrir þessa umferð. Joe Gomez og Trent Alexander-Arnold voru komnir á meiðslalistann frá síðasta leik og svo var fyrirliðinn ekki tiltækur heldur. James Milner tók stöðu Trent og Fabinho Tavarez kom inn í hjarta varnarinnar. Það var gott að sjá Fabinho koma inn eftir meiðsli og eins kom Naby Keita líka inn eftir að hafa verið meiddur. Mohamed Salah var ekki í hópnum eftir að skimum í Egyptalandi sýndi að hann væri með veiruna skæðu. Fyrst alla þessa leikmenn og fleiri til vantaði töldu margir að nú væri lag fyrir Brendan Rodgers að ná sigri á Anfield. 


Fyrir leikinn var Ray Clemence minnst. Markmaðurinn dáði lést fyrir viku. Markmenn Liverpool og þjálfarar þeirra lögðu blómsveig fyrir aftan markið fyrir framan The Kop. Alisson Becker klæddi sig svo úr grænni markmannstreyju eins og Ray klæddist svo oft, braut hana saman og lagði við hliðina á blómunum. Falleg athöfn! 

Áður en flautað var til leiks klöppuðu leikmenn Liverpool og Leicester City fyrir Ray og minningu hans. Tilfinningaþrungin stund!

Liverpool byrjaði leikinn af krafti og á 9. mínútu endaði gott samspil á því að Naby sendi til hægri í vítateignum á Curtis Jones. Hann náði föstu skoti úr frekar þröngu færi en Kasper Schmeichel varði vel. Rétt á eftir komst Diogo Jota í skotfæri við vítateiginn en Kasper varði. 

Á 21. mínútu fékk Liverpool horn frá hægri. James Milner tók hornið. Sadio Mané og Jonny Evans voru þar fyrir þar sem boltinn lækkaði flugið og boltinn þeyttist í markið. Boltinn hafði farið af hnakkanum á Jonny og í markið. Það kom sé vel og Liverpool yfir! Tveimur mínútum seinna ógnaði Leicester í fyrsta skipti í leiknum. Harvey Barnes fékk þá opið skotfæri í vítateignum eftir sendingu frá Jamie Vardy en hann skaut framhjá. 

Fjórum mínútum fyrir leikhlé átti Liverpool frábæra sókn. Boltinn gekk út til vinstri á Andrew Robertson sem gaf inn í vítateiginn. Þangað var Diogo mættur til að skalla boltann í markið eftir að hafa tekið rispu inn í vítateiginn. Glæsilegt mark! Hinu megin á vellinum átti Youri Tielemans skot í næstu sókn en Alisson varði örugglega. Staðan 2:0 í hálfleik. 

Liverpool hafði áfram öll tök á leiknum og hver leikmaður liðsins var öðrum betri. Á 54. mínútu stakk James boltanum inn fyrir á Sadio sem komst einn fram vinstra megin inn í vítateiginn. Kasper gerði vel í að verja skot hans. Boltinn hrökk að markinu og þar náði varnarmaður að bjarga á línu með skalla þegar  Diogo gerði sig líklegan til að skora. Litlu síðar meiddist enn einn leikmaður Liverpool. Naby varð að fara af velli og virtist tognaður aftan í læri. Neco Williams kom í hans stað. Slæmt því Naby var búinn að spila vel. 

Enn sótti Liverpool. Diogo átti skot sem Kasper varði. Daninn hélt ekki boltanum og Diogo náði boltanum á nýjan leik og skaut. Aftur varði Kasper en hélt ekki. Roberto Firmino var við að skalla boltann í markið en Jonny var á undan honum og skallaði boltann. Engu munaði að hann skoraði aftur sjálfsmark því boltinn small í stönginni. En Leicester slapp með skrekkinn.

Hver sóknin rak aðra. Roberto sneri varnarmann af sér við vítateigslínuna. Hann slapp inn í teiginn og skot hans virtist ætla í markið en boltinn fór í stöngina innanverða. Hann náði aftur til boltans og kom honum að markinu en varnarmaður bjargaði á línu. Boltinn hrökk út á Sadio sem skaut. Kasper varði en boltinn fór af honum og stefndi í markið en endaði í stöng og flaug þaðan í fangið á danska markmanninum. Lygilegt að Liverpool skyldi ekki ná að skora. Mörgum fannst boltinn vera kominn inn í markið þegar Roberto skaut að marki í seinna skiptið. Í ljós kom að einum sentimeter munaði að mark yrði!

Þegar fjórar mínútur voru eftir var sigurinn innsiglaður. James tók horn frá hægri. Boltinn hitti beint á Roberto sem skallaði fallega í markið frá vítapunktinum. Roberto fagnaði innilega með félögum sínum. Sterkur sigur var í höfn og sýndi að Englandsmeistararnir ætla ekki að gefa neitt eftir!

Sigur og markinu haldið hreinu. Það var ekki hægt að heiðra minningu Ray Clemence betur! Svo var nýtt félagsmet innsiglað. Liverpool hefur nú leikið 64 deildarleiki í röð án taps á Anfield!

Liverpool: Alisson, Milner, Matip, Fabinho, Robertson, Jones, Wijnaldum, Keita (N. Williams 54. mín.), Jota (Origi 89. mín.), Firmino og Mané (Minamino 89. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Tsimikas, Phillips og Clarkson.

Mörk Liverpool: Jonny Evans, sm, (21. mín.), Diogo Jota (41. mín.) og Roberto Firmino (86. mín.).

Leicester City: Schmeichel, Fofana, Evans, Fuchs (Praet 62. mín), Albrighton, Tielemans, Mendy, Justin, Maddison, Barnes (Ünder 62. mín.) og Vardy. Ónotaðir varamenn: Ward, Morgan, Iheanacho, Choudhury og Thomas.

Gul spjöd: James Justin og Nampalys Mendy.

Áhorfendur á Anfield Road:
Kenny Dalglish og Ian Rush :)
 
Maður leiksins: James Milner. Fyrirliðinn lék frábærlega. Fyrst sem bakvörður og svo á miðjunni. Tvær hornspyrnur hans skiluðu mörkum. Frábær leikur hjá þessum ábilandi kappa!

Jürgen Klopp: Þetta var virkilega góður leikur. Við urðum að spila mjög vel, því annars hefðum við ekki átt neina möguleika, og strákarnir gerðu það sannarlega frá fyrstu sekúndu. Við stjórnuðum leiknum, áttum góðar sendingar, hlupum í réttu svæðin, leikmenn buðu sig og aðrir nýttu sér það! Margt var mjög vel gert!


Fróðleikur.

- Liverpool setti nýtt félagsmet. Nú hefur liðið spilað 64 deildarleiki í röð án taps á Anfield!

- Liverpool skoraði í 39. deildarleiknum í röð á Anfield. Það er nýtt félagsmet þegar leikir í efstu deild eru taldir!

- Diogo Jota skoraði áttunda mark sitt á leiktíðinni. 

- Hann er fyrsti leikmaður í sögu Liverpool til að skora í fyrstu fjórum heimaleikjum sínum. Miðað er við efstu deild. 

- Roberto Firmino skoraði annað mark sitt á sparktíðinni. 

- Georginio Wijnaldum lék sinn 200. leik með Liverpool. Hann hefur skorað 19 mörk.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan