| Sf. Gutt

Ray Clemence látinn


Ray Clemence fyrrum leikmaður Liverpool er látinn. Tilkynnt var um andlát hans í dag. Ray var einn dáðasti leikmaður í sögu Liverpool og að flestra áliti besti markmaður í sögu félagsins.


Ray fæddist í Skegness 5. ágúst 1948. Hann hóf feril sinn með Scunthorpe United og lék með liðinu frá 1965 til 1967 en þá keypti Liverpool hann fyrir 18.000 sterlingspund. Til að byrja með var hann varamarkmaður fyrir Tommy Lawrence en tók svo við stöðu hans endanlega á leiktíðinni 1969/70. Á næstu 11 keppnistímabilum missti hann aðeins af sex deildarleikjum.

Ray komst smá saman í fremstu röð. Einbeiting hans var með eindæmum og hann var alltaf tilbúinn þó svo hann hefði oft lítið að gera í markinu. Besta keppnistímabil hans var 1978/79. Ray fékk þá aðeins 16 mörk á sig í 42 deildarleikjum. Það var og er met í 42. leikja efstu deild. Flestra álit er að hann sé besti markmaður í sögu Liverpool. Ray lék 665 leiki með Liverpool.  


Ray varð Englandsmeistari með Liverpool 1972/73, 1975/76, 1976/77, 1978/79 og 1979/80. Hann vann FA bikarinn 1974 og Deildarbikarinn 1981. Ray vann Evrópukeppni félagsliða 1973 og 1976. Hann vann svo Evrópubikarinn 1977, 1978 og 1981. Hann vann Stórbikar Evrópu 1977. Ray var Skjaldarhafi 1974, 1976, 1977, 1979 og 1980.


Ray fór óvænt frá Liverpool sumarið 1981 en þá gekk hann til liðs við Tottenham Hotspur. Síðasti leikur Ray með Liverpool var í úrslitaleikurinn í Evrópukeppni meistaraliða þegar Liverpool vann Real Madrid 1:0 í París. Með Tottenham varð hann Skjaldarhafi 1981 og vann svo FA bikarinn 1982. Ray lék með Tottenham til 1988 en þá lagði hann hanska og skó á hilluna. Hann þjálfaði Tottenham um tíma. Ray var framkvæmdastjóri Barnet frá 1994 til 1996. 

Ray lék 61 landsleik með enska landsliðinu frá 1972 til 1983. Hann var seinna markmannsþjálfari hjá landsliðinu í nokkur ár. Ray lék 1118 leiki á ferlinum og í þeim leikjum hélt hann hreinu í 460 leikjum. Hermt er að enginn markmaður hafi haldið jafn oft hreinu. 

Ray fékk MBE orðuna 1987. Hann var búinn að berjast við krabbamein í nokkur ár. Ray náði að hrista það af sér af og til en í dag lést hann.

Bob Paisley: ,,Náttúrulegir hæfileikar héldu honum svo lengi á toppnum. Hann hefur þá náðargjöf að láta allt líta svo einfalt út. Hreinræktaðir hæfileikar!"

Ray Clemence: ,,Ef ég þarf að verja tvisvar eða þrisvar þá hef ég haft mikið að gera!"

Hvíl í friði Ray!

Hér er minningargrein um Ray á Liverpoolfc.com. 

Hér er sagt frá ferli Ray á vefsíðu BBC. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan