| Sf. Gutt

Paul Glatzel kominn til leiks


Ungliðinn Paul Glatzel er kominn aftur til leiks eftir slæm hnjámeiðsli í fyrrasumar. Hann sleit krossbönd í fyrsta æfingaleiknum fyrir síðasta keppnistímabil. 

Paul spilaði sinn fyrsta leik eftir meiðslin um síðustu helgi með undir 23. ára liði Liverpool þegar liðið vann Arsenal 0:1. Í dag skoraði hann svo þegar Liverpool vann West Ham United 2:4. Luis Longstaff, Tom Clayton og Liam Millar, úr víti, skoruðu hin mörkin. Paul kom inn á sem varamaður í báðum leikjunum. Liverpool er eins og er í öðru sæti í undir 23. ára deildinni með 15 stig eftir sjö leiki. Derby County er stigi á undan en Liverpool á leik til góða. 


Paul Glatzel hefur verið talinn einn efnilegasti leikmeður Liverpool síðustu árin. Framherjinn var fyrirliði og lykilmaður þegar Liverpool vann Unglingabikarinn vorið 2019. Það var því mikið áfall fyrir hann þegar hann meiddist um sumarið.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan