| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur er gegn Atalanta á útivelli í Meistaradeildinni og er þetta í fyrsta sinn í sögu félaganna sem þau mætast. Leikurinn fer fram þriðjudagskvöldið 3. nóvember klukkan 20:00.

Það gerist ekki oft að okkar menn mæta liði sem þeir hafa aldrei mætt áður í sögunni en riðill liðsins í Meistaradeildinni býður sem betur fer upp á slíka leiki. Aðeins einu sinni áður hafði liðið spilað gegn Ajax í sögunni og Midtjylland og Atalanta eru splunku nýir mótherjar. Ítalska liðið Atalanta hefur undanfarin ár vakið athgyli í Evrópu fyrir að leggja mikla áherslu á sóknarleikinn og það er klárlega erfiður leikur sem bíður Jürgen Klopp og hans manna.

Atalanta var stofnað árið 1907 og hefur lengst af leikið í efstu deild á Ítalíu og yfirleitt siglt lygnan sjó um miðja deild, ef undanskilin eru síðustu ár, þar sem uppgangur liðins hefur verið mikill undir stjórn Gian Piero Gasperini. Liðið hefur unnið ítölsku bikarkeppnina einu sinni, nánar tiltekið 1963 og árið 1988 komst liðið í undanúrslit í Evrópukeppni bikarhafa þrátt fyrir að spila í Serie B heimafyrir og er það besti árangur liðs sem ekki hefur leikið í efstu deild í Evrópukeppni (ásamt Cardiff City). Liðið er þekkt undir nafninu Regina delle provinciali sem útleggst sem Drottning landshluta félaganna en það er vegna þess að félagið hefur lengi verið eitt besta lið Ítalíu sem ekki kemur frá einum af stórborgum landsins. Félagið vakti verðskuldaða athygli á síðasta tímabili fyrir frábæran árangur í Meistaradeildinni, vann sigur á Valencia í 16-liða úrslitum og var svo hársbreidd frá því að slá PSG út í næsta leik, voru yfir 1-0 þegar lítið var eftir en franska liðið náði að jafna og tryggja sér svo sigur í uppbótartíma. Eins og flestir muna voru 8-liða úrslitin bara einn leikur vegna Kórónuveirunnar og Ítalirnir sátu eftir með sárt ennið. Liðið er í 4. sæti Serie A eftir 6 umferðir, þeir byrjuðu vel og unnu fyrstu þrjá leiki sína, þar á meðal 1-4 útisigur gegn Napoli en töpuðu næstu tveim leikjum þar á eftir. Um helgina unnu þeir 1-2 útisigur á Crotone. Í Meistaradeildinni sigruðu þeir Midtjyllan 0-4 í fyrsta leik og gerðu svo 2-2 jafntefli heima gegn Ajax.

Hvað okkar menn varðar eru aðeins betri fréttir af meiðslum en Joel Matip og Naby Keita hófu æfingar að fullu á ný á sunndaginn var. Hvort þeir verði í standi til að spila tveim dögum síðar verður að koma í ljós og því má alveg eins búast við því að hinn ungi Rhys Williams verði í byrjunarliðinu og meiri áhersla verði sett á að hafa Matip klárann í slaginn gegn Manchester City um næstu helgi. Það er auðvitað mjög þétt spilað þessar vikurnar og því ekki létt að spá í hvernig Klopp stillir upp liðinu, með það í huga að álagið má ekki vera of mikið á leikmenn. Það væri til dæmis gott að gefa þeim Andy Robertson og Trent Alexander-Arnold smá frí einhverntímann en hreint út sagt sér maður aldrei neitt tækifæri til þess hjá Klopp. Sigur á Ítalíu myndi setja okkar menn í mjög góða stöðu í riðlinum eftir aðeins þrjá leiki. Oftar en ekki hafa okkar menn þurft að mæta í síðasta leik riðilsins þar sem sigur verður að duga og það hefur aldrei verið hægt að gefa minni spámönnum séns þar sem sæti í 16-liða úrslitum er tryggt fyrirfram. Mikið óskaplega væri gott ef þetta tækist á þessu tímabili.

Spáin að þessu sinni er sú að gestirnir frá Bítlaborginni vinna góðan sigur, auðvitað í miklum markaleik, lokatölur 2-3. Eigum við ekki að segja til tilbreytingar að þetta verði aldrei í hættu, staðan verður 0-2 í hálfleik og 3-1 um miðjan seinni hálfiek. Atalanta menn minnka muninn í uppbótartíma og þar við situr.

Fróðleikur:

- Okkar menn hafa unnið báða leiki sína í riðlinum til þessa og sitja á toppnum með sex stig.

- Atalanta eru í öðru sæti með fjögur stig.

- Mohamed Salah og Diogo Jota hafa skipt markaskorunni í Evrópu á milli sín með eitt mark hvor, eitt mark var svo sjálfsmark.

- Duván Zapata, Alejandro Gómez og Luis Muriel hafa allir skorað fimm mörk fyrir Atalanta það sem af er tímabils en Zapata er markahæstur í Evrópu með þrjú mörk.

- Sadio Mané spilar líklega sinn 180. leik fyrir félagið í öllum keppnum.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan