| Sf. Gutt

Hvað gerist? - Uppfært í dag og fram á kvöld!

Í kvöld verður lokað fyrir félagskipti knattspyrnumanna. Eins og vant er verður fylgst með gangi mála hér á Liverpool.is. Eftir útreiðina á Villa Park myndu sumir vilja annan markmann!  Xherdan Shaqiri og Marko Grujic eru til umræðu.


23:00.
 Lokað hefur verið fyrir félagaskipti. Enginn fór og enginn kom í dag. Ekkert óvænt í því. Kostas Tsimikas, Thiago Alcantara og Diogo Jota eru mennirnir sem komu og svo er að sjá hvernig þeir reynast!

22:00. Marko Grujic og Xherdan Shaqiri verða áfram hjá Liverpool. Þeir voru til sölu fyrir rétt verð en rétt verð var ekki boðið af þeim sem höfðu áhuga.

21:00.
Liverpool keypti pólskan 16 ára strák í sumar. Hann heitir Mateusz Musialowski og spilar sem kantmaður. Hann kom frá SMS Lodz. Hann kemur til með að spila með unglingaliðunum fyrsta kastið. 

20:15. Celtic mun hafa reynt að fá Harry Wilson að láni. Það var ekki í boði.

20:00. Eftir því sem Liverpool Echo greinir frá þá reyndi Werder Bremen að kaupa Marko. Það gekk ekki eftir. Trúlega vegna þess að þýska liðið gat ekki borgað uppsett verð Liverpool. 


16:00. Þýsk félög þekkja til Marko Grujic enda hefur hann spilað sem lánsmaður hjá Hertha Berlin síðustu tvær leiktíðir. Werder Bremen mun hafa áhuga á að fá Serbann til liðs við sig. 


15:00. Xherdan Shaqiri var ekki með í Deildarbikarleiknum á móti Arsenal. Þar með var talið að hann væri á förum frá Liverpool. Einhver félög eiga að hafa áhuga á honum. 

13:15. Eftir útreiðina á Villa Park í gær myndu sumir vilja annan markmann! Paulo Gazzaniga, markmaður Tottenham, hefur verið nefndur til sögunnar. Fremur ósennilegt því Adrían San Miguel er nú sennilega í svipuðum gæðaflokki. 


13:00. Talið hefur verið næsta víst að Harry Wilson færi frá Liverpool. Burnley var að reyna að ná samningi en það virðist ekki ætla að verða.


8:00. Einhverjir fjölmiðlar hafa fjallað um meintan áhuga Leeds United á ungliðanum  Yasser Larouci sem venujulega spilar sem vinstri bakvörður. Ekki er gott að segja hvort fótur sé fyrir því.  


7:00. Kostas Tsimikas, Thiago Alcantara og Diogo Jota hafa bæst við leikmannahóp Liverpool frá liðið varð Englandsmeistari í sumar. Nathaniel Clyne, Dejan Lovren, Adam Lallana, Ovie Ejaria, Ki-Jana Hoever og Rhian Brewster eru farnir á braut. Þeir Sheyi Ojo, Loris Karius og Kamil Grabara hafa verið lánaðir. Nokkrir ungliðar eru farnir í lán en þetta eru þeir sem teljast til aðalliðsins. 

Jürgen Klopp hefur talað á þann veg að ekki sé útlit á viðskiptum í dag. Reyndar hefur Liverpool ekki stundað mikil viðskipi á síðasta degi á valdatíma Þjóðverjans. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan