| Sf. Gutt

Fyrir fimm árum!


Sunnudaginn 4. október 2015 leiddu grannliðin Liverpool og Everton saman hesta sína á Goodison Park. Leikurinn reyndist sá síðasti á valdatíð Brendan Rodgers.


Eftir góða byrjun í fyrstu þremur leikjunum fór að halla undan fæti hjá Liverpool undir stjórn Brendan Rodgers. Fyrstu tveir leikir leiktíðarinnar höfðu unnist en svo hafði Liverpool aðeins unnið einn í næstu sjö leikjum á undan leiknum á Goodison. Reyndar vannst líka vítaspyrnusigur á Carlisle United í Deildarbikarnum en býsna mörg spjót voru farin að beinast í áttina að Brendan.  


Danny Ings kom Liverpool yfir á Goodison þegar stutt var til leikhlés en heimamenn náðu að jafna fyrir hlé. Liverpool lék þokkalega miðað við suma af leikjunum á undan en ekkert var skorað í síðari hálfleik. Hefðbundinn blaðamannafundur var haldinn eftir leik þar sem Brendan Rodgers sat fyrir svörum. Ekkert óvenjulegt kom fram á fundinum þó svo að Brendan væri skiljanlega spurður út í framtíð sína. 

Seinna um daginn, þegar Brendan var kominn á Melwood til að ljúka vinnudegi sínum, hringdi Mike Gordon forstjóri FSG í hann og sagði honum að ákveðið hefði verið að hann myndi ekki stjórna Liverpool lengur. Opinber yfirlýsing til fjölmiðla birtist litlu síðar á opinberri vefsíðu Liverpool F.C. þar sem Brendan voru þökkuð vel unnin störf og staðfest að leit væri hafin að nýjum framkvæmdastjóra.





Brendan Rodgers tók við Liverpool 1. júní 2012 og stýrði því Liverpool í þrjú ár, fjóra mánuði og fjóra daga. Norður Írinn gerði góða hluti en eftir að hafa misst naumlega af Englandsmeistaratitlinum vorið 2014 hallaði fljótt undan fæti.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan