| Grétar Magnússon

Thiago Alcantara orðinn leikmaður Liverpool !

Nú rétt í þessu voru kaupin á spænska miðjumanninum Thiago Alcantara, frá Bayern München, staðfest. Thiago mun klæðast treyju númer 6 hjá félaginu.



Það hefur verið endalaust slúður í allt sumar um kaup félagsins á þessum frábæra leikmanni en sem dæmi hafa Liverpool Echo, sem yfirleitt hafa góðar heimildir fyrir sínum fréttum, staðfastlega haldið því fram að áhugi félagsins væri ekki fyrir hendi. Hvað sem því líður, eins og við greindum frá í gær fór boltinn að rúlla fyrir alvöru og í dag hafa önnur leikmannakaup félagsins verið staðfest.

Stuttu eftir að hafa skrifað undir sagði Thiago: ,,Þetta er ótrúleg tilfinning. Ég hef beðið eftir þessari stundu í langan tíma og ég er mjög, mjög ánægður núna. Þegar árin líða reynir maður að vinna allt sem maður getur - og þegar það gerist, vill maður vinna meira. Ég held að þetta félag speglist svolítið í sjálfum mér, vinna eins marga bikara og hægt er."

,,Það er líka þessi fjölskyldu tilfinning hérna sem ég þarfnast því ég vil vera í nánu sambandi við mitt félag og ég held að þessi tilfinning muni verða sterkari eftir því sem tíminn líður."



Thiago er nýkrýndur þýskur meistari, bikarmeistari og Evrópumeistari með Bayern München en hann spilaði 40 leiki í öllum keppnum með félaginu á nýliðinni leiktíð. Hann er 29 ára gamall og hefur til þessa spilað 39 landsleiki fyrir Spánverja. Hann hóf ferilinn hjá Barcelona en síðustu sjö tímabil hefur hann verið á mála hjá þýska stórveldinu. Heilt yfir hefur hann unnið níu deildarmeistaratitla, Meistaradeildina tvisvar sem og Heimsmeistarakeppni félagsliða einu sinni. Þetta er því klárlega leikmaður sem kann að vinna bikara.

Hann bætir við: ,,Ég verð að aðlagast liðinu eins fljótt og hægt er. Við byrjuðum aðeins seinna í Þýskalandi og hér er spilað þéttar en þetta er samt bara fótbolti og ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu. Ég mun hjálpa liðinu varnar- og sóknarlega og ekki síst andlega líka."

,,Stuðningsmennirnir eru ekki spenntari en ég ! Þetta snýst samt ekki um að tala endalaust heldur láta verkin tala. Ég mun gefa hjarta mitt úti á vellinum til liðsfélaga minna, félagsins og stuðningsmannana."

Eins og áður sagði mun Thiago vera í treyju númer 6 hjá félaginu en það er sama númer og hann var með hjá Bayern. Númerið var laust eftir að Dejan Lovren var seldur í sumar en hann hafði verið með númerið síðustu sex tímabil. Aðrir þekktir leikmenn sem hafa verið með sexuna á bakinu eru Fabio Aurelio, Markus Babbel og John Arne Riise.



Jürgen Klopp var að sjálfsögðu ánægður með nýjasta liðsmann félagsins og hafði þetta að segja:

,,Frábært! Algjörlega frábært. Ég er virkilega ánægður með að málið hafi verið leyst farsællega. Þetta er í raun ótrúlegt því í okkar stöðu erum við endalaust spurðir - Hvað ætlið þið að gera - aftur og aftur. Að undirbúa svona félagaskipti og vinna að öllum þeim mismunandi hlutum sem þurfa að ganga upp í svona félagaskiptum - án þess að leiða hugann að leikmanninum sjálfum er ánægjulegt, ef ég á að vera hreinskilinn, vegna þess að þetta gefur okkur möguleika. Svo þegar maður á samskipti við leikmanninn og áttar sig á því að honum líkar verkefnið mjög vel, áður en að hann er keyptur var einnig mjög gott. Ég lærði meir og meir um hann sem persónu, ég þekkti auðvitað leikmanninn. Ég er því hæstánægður með að hafa getað komið með þessa einstöku persónu inn í leikmannahópinn, sem er auðvitað gott knattspyrnulega séð - en einnig fyrir allar hinar ástæðurnar líka."

Klopp var einnig spurður að því hvort hann hafi einhverntímann vonast eftir því að geta fengið leikmann eins og Thiago til liðs við sig, hann svaraði:

,,Nei, því leikmaður eins og Thiago sem var búinn að vera lengi hjá Bayern er vanalega ekki til sölu fyrir neitt lið. Ef leikmaðurinn vill ekki fara þá á maður ekki möguleika. Maður sér að Bayern eru með langa samninga við sína aðalleikmenn. Thiago var lykilleikmaður í þessu liði og ég veit að allir hjá félaginu vildu halda honum, það er eðlilegt og skiljanlegt því hann spilaði mikilvægt hlutverk. Hann sjálfur var tilbúinn til að takast á við ný tækifæri og ákvað að velja okkur. Það er auðvitað hrós í sjálfu sér því hann veit að úrvalsdeildin er erfið en hann vildi engu að síður spila í deildinni. Hann veit að við erum með gott lið en hann vill samt koma til okkar. Þegar við ræddum um alla leikmennina okkar sá ég að hann ber mikla virðingu fyrir þeim. Við spiluðum á móti honum gegn Bayern á þarsíðasta tímabili í Meistaradeildinni og hann veit hversu öflug vél við getum verið og vildi vera hluti af því. Þetta snýst um liðið, um félagið og að hann vildi koma hingað. Það er virkilega frábært. En hugsaði ég um hann sem leikmann Liverpool fyrir einhverju síðan ? Auðvitað pældi ég í honum sem leikmanni en leiddi í raun aldrei hugann að því að kaupa hann ef ég á að segja satt frá."


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan