| Sf. Gutt

Mohamed Salah brýtur blað


Mohamed Salah braut blað í sögu Liverpool í gær þegar hann skoraði fyrsta markið í leik Liverpool og Leeds United. Þar með varð hann fyrsti leikmaður í sögu Liverpool til að skora í fyrstu umferð deildarinnar fjögur keppnistímabil í röð!


Mohamed skoraði í sínum fyrsta leik með Liverpool á leiktíðinni 2017/18 þegar Liverpool gerði 3:3 jafntefli við Watford. Í fyrstu umferð á næsta keppnitímabili 2018/19 skoraði Mohamed í 4:0 heimasigri á West Ham United. Á síðustu leiktíð byrjaði Mohamed líka vel og skoraði í 4:1 sigri Liverpool á Norwich City á Anfield. Í gær gerði hann svo gott betur með því að skora þrennu í 4:3 sigri Liverpool á Leeds. Egyptinn er þar með búinn að skora í fyrstu umferð deildarinnar fjögur keppnistímabil í röð. Nýtt félagset! Ekki fyrsta metið sem Mohamed setur á ferli sínum hjá Liverpool og örugglega ekki það síðasta!

Reyndar setti Mohamed annað met í leiknum. Liverpool hefur nú unnið síðustu 35 deildarleiki í röð sem Mohamed hefur skorað í. Wayne Rooney átti gamla metið sem var 34 leikir. Hann setti það á meðan hann spilaði með Manchester United. 


Með því að skora þrennu gegn Leeds varð Mohamed Salah fyrsti leikmaður Liverpool frá 1988 til að skora þrjú mörk í fyrstu umferð deildarinnar. John Aldridge afrekaði það síðast í ágúst 1988 þegar hann skoraði öll mörk Liverpool í 0:3 útisigri á Charlton Athletic.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan