| Sf. Gutt

Sóknin að 20. titlinum hófst með sigri!


Jürgen Klopp sagði fyrir leiktíðina að Liverpool ætlaði sér ekki að verja Englandsmeistaratitilinn heldur sækja að þeim næsta. Sóknin byrjaði með sigri í dag þegar Liverpool vann Leeds United 4:3 á Anfield Road í stórskemmtilegum leik.

Ekki þykir ennþá óhætt að hópa fólki saman þannig að engir áhorfendur voru á Anfield til að hylla meistarara á fyrsta leik nýrrar leiktíðar. Nokkuð kom á óvart að fyrirliðinn leiddi liðið sitt til leiks. Jordan Henderson er búinn að vera meiddur frá því í sumar og gat ekki tekið þátt í æfingaleikjunum. Fabinho Tavares var á bekknum og Naby Keita var í byrjunarliðinu. 

Liverpool byrjaði af miklum krafti og á á 4. mínútu lá boltinn í mark Leeds. Mohamed Salah fékk boltann í vítateignum og þrumaði að marki. Boltinn small í hendi varnarmanns og dómarinn dæmdi víti. Mohamed þrumaði boltanum á mitt markið og boltinn þandi netmöskvana. Gestirnir voru hvegi hræddir og sóttu við hvert tækifæri. Á 12. mínútu náði liðið góðri sókn. Jack Harrison fékk boltann út til vinstri. Hann lék framhjá Trent Alexander-Arnold, svo fram að vítateignum þaðan sem hann skoraði með skoti neðst í vinstra hornið. Falleg sókn. 

Átta mínútum seinn fékk Liverpool hornspyrnu frá vinstri. Andrew Robertson tók spyrnuna sem hitti beint á Virgil van Dikj sem hamraði boltann í markið með höfðunu. Reyndar fylgdi Illan Meslier markmaður Leeds með boltanum! Sjö mínútum seinna sendi Andrew aftur fyrir markið. Varnarmaður komst fyrir sendinguna en ekki tókst honum alveg að hreinsa og boltinn stefndi í markið. En Illan var vel á verði og náði að blaka boltanum yfir markið á síðustu stundu. Í stað þess að Liverpool kæmist tveimur mörkum yfir jafnaði Leeds tveimur mínútum seinna. Löng sending kom í átt að vítateig Liverpool. Virgil hafði öll tök á að heinsa en hann ákvað að senda boltann á Andrew. Það tókst ekki því Patrick Bamford náði boltanum og skoraði framhjá Alisson Becker. 

Fjörið hélt áfram. Á 33. mínútu tók Andrew aukaspyrnu. Varnarmaður Leeds náði að skalla frá en ekki langt. Boltinn féll fyrir fætur Mohamed sem lagði boltann fyrir sig með einni snertingu og þrumði honum svo upp í hægri vinkilinn. Stórglæsilegt mark og þau verða ekki mörg fallegri skoruð á þessu keppnistímabili! Liverpool leiddi 3:2 í hálfleik.

Litlu munaði á 49. mínútu að Liverpool bætti við. Georginio Wijnaldum fékk þá boltann og átti fast skot af stuttu færi en Illan varði vel. Liverpool var mun betra liðið en gestirnir jöfnuðu í þriðja sinn á 66. mínútu. Hélder Costa sendi inn í vítateiginn á  Mateusz Klich sem lagði boltann fyrir sig áður en hann smellti honum út í hornið. Glæsilegt mark og staðan jöfn. 

Eftir því sem leið nær leikslokum herti Liverpool tökin. Virgil drap boltann niður eftir horn og þrumaði honum í markið þegar um tíu mínútur voru eftir en markið var dæmt af. Talið var að varamaðurinn Curtis Jones hefði hindrað varnarmann Leeds en þar var tæpt að sú ákvörðun væri rétt.   


Þegar tvær mínútur voru eftir felldi varamaðurinn Rodrigo Moreno annan varamann Fabinho Tavarez í vítateignum. Dómarinn dæmdi víti sem Mohamed tók. Egyptinn kórónaði stórleik sinn með því að skora af miklu öryggi úr vítinu . Leikmenn Liverpool fögnuðu innilega eftir að hafa komist yfir í fjórða og síðasta sinn í leiknum! Eins gott að lítið var eftir þegar Mohamed skoraði!

Liverpool hafði sigur í stórskemmtilegum leik. Vörnin var mjög óörugg en sóknarleikurinn frábær! Sókin að 20. Englandsmeistaratitli Liverpool er hafin!

Liverpool:
Alisson, Alexander-Arnold (Matip 89. mín.), Gomez, van Dijk, Robertson, Keita (Fabinho 59. mín.), Henderson (Jones 66. mín.), Wijnaldum, Salah, Firmino og Mané. Ónotaðir: Adrián, Milner, Minamino og  Origi. 

Mörk Liverpool: Mohamed Salah (4. mín. víti, 33. mín. og 88. mín. víti.) og Virgil van Dijk (20. mín.).

Gult spjald: Roberto Firmino. 

Leeds United: Meslier, Ayling, Koch, Struijk, Dallas, Phillips, Costa, Hernández (Roberts 62. mín.), Klich (Shackleton (81. mín.) Harrison og Bamford (Rodrigo 62. mín.). Ónotaðir varamenn: Poveda-Ocampo, Alioski, Casilla, og Casey.

Mörk Leeds United: Jack Harrison (12. mín.), Patrick Bamford (30. mín.) og Mateusz Klich (66. mín.).

Maður leiksins: Mohamed Salah var hreint út sagt frábær! Fyrir utan að skora þrennu þá var hann látlaust að ógna vörn Leeds. Egyptinn er einfaldlega í heimsklassa! 

Jürgen Klopp: Við vorum oft virkilega hættulegir þegar við vorum með boltann. Við ætluðum okkur að vera mjög beittir í þeim stöðum því við vissum að við myndum valda þeim vandræðum. Fyrir utan mistökin þrjú sem leiddu til markanna þá var leikurinn alveg eins og hann átti að vera.

Fróðleikur

- Mohamed Salah var fyrstur leikmanna Liverpool til að skora í fyrstu umferð fjögur keppnistímabil í röð. 

- Mohamed varð fyrsti leikmaður Liverpool til að skora þrennu á fyrsta leikdegi frá því John Aldridge skoraði öll mörkin í 0:3 útisigri Liverpool á Charlton Athletic í ágúst 1988.

- Liverpool hefur unnið síðustu 35 deildarleiki sem Mohamed hefur skorað í. Það er met í deildinni. 

- Virgil van Dijk skoraði tíunda deildarmark sitt fyrir Liverpool. Enginn varnarmaður hefur skorað fleiri í deildinni frá því hann lék sinn fyrsta leik með Liverpool. 

- Markið sem Virgil skoraði 

- Liverpool hefur í það minnsta skorað þrjú mörk í öllum þeim leikjum sem Jürgen Klopp hefur stjórnað Liverpool í fyrstu umferð deildarinnar frá því hann tók við stjórn liðsins.  

- Liverpool lék sinn 60. deildarleik í röð á Anfield Road án taps. Liverpool hefur unnið 49 leiki af þessum 60 og gert 11 jafntefli. Félagsmet Liverpool er 63 leikir. 

- Chelsea á metið sem er 86 leikir.

- Liverpool og Leeds United léku síðast í deildinni á Anfield árið 2003. Þá var James Milner í liði Leeds! Í dag var hann á varamannabekk Liverpool. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan