| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Það er komið að opnunarleiknum á nýju keppnistímabili. Samt er síðasta keppnistímabil nýliðið. Englandsmeistarar Liverpool mæta bikarmeisturum Arsenal. Stórleikur þó áhorfendastæðin á Wembley verði auð!


Þeir sem töldu, eða vonuðu, að Liverpool myndi aldrei verða Englandsmeistari aftur höfðu rangt fyrir sér. Það tók 30 ár en fimmtudaginn 25. júní varð Liverpool Englandsmeistari í 19. sinn! Chelsea vann Manchester City á Stamford Bridge og þar með varð Liverpool Englandsmeistari. Þótt komið væri vel fram í júní hafði ekkert lið unnið titilinn jafn snemma. Liverpool átti jú sjö leiki eftir. Heimsfaraldur hægði Liverpool en stöðvaði liðið ekki! Liðið okkar var svo krýnt meistari að kvöldi miðvikudagsins 22. júlí eftir að það tók Chelsea í gegn 5:3. Sanngjarn og verðskuldaður titill! Stuðningsmenn Liverpool eru búnir að vera með bros á vör frá því þessi eftirminnilegu sumarkvöld liðu. Svo verður áfram um ókomna tíð!

En nú byrjar allt upp á nýtt. Ný leiktíð er að hefjast og sú næsta á undan varla búin. En það dugir ekki annað en að aðlaga sig að stöðunni þó svo leikmenn hafi varla fengið ráðrúm til að kasta mæðinni. Liverpool kemur nú til leiks í Skjaldarleik sem Englandsmeistari í fyrsta skipti frá því 1990. Í fyrra fékk Liverpool sæti í leiknum eftir að hafa verið í öðru sæti í deildinni þar sem Manchester City hafði unnið allt sem hægt var að vinna á Englandi. Í báðum tilfellum fékk Liverpool þó sæti eftir frábæran árangur í deildinni. Sumir segja Skjaldarleikinn óþarfan og ómerkilegan sýningarleik. En sæti í honum er staðfesting á framúrskarandi árangri liðanna sem þar mætast. Þess vegna er það gleðiefni að mæta til leiks í Skjaldarleik og best væri að eiga sæti í honum á hverju ári!

Liverpool vann deildina með yfirburðum og sló hvert metið á fætur öðru. Aðeins einu sinni áður hefur lið fengið fleiri stig í deildarkeppninni. Liðið hefur unnið fjóra titla frá því 1. júní í fyrra. Arsenal hefur á hinn bóginn átt erfitt uppdráttar síðustu tvö árin. Það fór þó svo að liðið fór að rétta úr kútnum eftir að Mikel Arteta tók við stjórn þess. Það sló Manchester City óvænt út úr FA bikarnum og vann svo bikarinn eftir sigur á Chelsea í úrslitaleik. Aldeilis prýðilegur endir á keppnistímabilinu hjá Skyttunum. 


Jordan Henderson, Alex Oxlade-Chamberlain, Joël Matip, Divock Origi, Xherdan Shaqiri og Harry Wilson eru meiddir. Ekki er víst með þátttöku Trent Alexander-Arnold en hann tók ekki þátt í æfingaleikjunum tveimur í Austurríki. Einhverja vantar í liðshóp Arsenal en allir sterkustu menn liðsins eru til taks. Liverpool vann Arsenal í byrjun síðustu leiktíðar en Arsenal sneri blaðinu við núna í sumar. Í fyrrahaust sló Liverpool Arsenal út úr Deildarbikarnum eftir ævintýralegt jafntefli og vítaspyrnukeppni. Það er því búið að vera fjör í síðustu leikjum liðanna! 


Jürgen Klopp lagði áherslu á það á blaðamannafundi í gær að hann teldi leikinn skipta máli og hann vildi vinna Skjöldinn. Hann sagði það segja sér sjálft að leikur á Wembley um verðlaunagrip væri þýðingarmikill leikur!

Ég spái því að Liverpool vinni Samfélagsskjöldinn. Liverpool vinnur 2:0. Sadio Mané og Mohamed Salah skora mörkin. Nýtt keppnistímabil er að fara af stað og Liverpool hefur Englandsmeistaratitil að verja!

YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan