| Sf. Gutt

Af leikmannamálum


Liverpool hefur ekki fengið neinn leikmann til sín það sem af er sumri. En nú upp á síðkastið hafa Englandsmeistararnir verið orðaðir við þrjá leikmenn. 

Liverpool bauð núna í vikunni tíu milljónir sterlingspunda í Jamal Lewis. Forráðmenn Norwich City, sem féll úr Úrvalsdeildinni, hafnaði tilboðinu. Talið er að félagið vilji helmingi hærri upphæð. Jamal sem er landsliðsmaður Norður Írlands er hugsaður til að leysa Andrew Robertson af eftir þörfum. Hermt er að Jamal vilji fyrir alla muni komast til Liverpool. 

Thiago Alcantara leikur með Bayern München. Talið er að spænski miðjumaðurinn vilji fara til Liverpool en ekki er vitað hvort tilboð hefur verið lagt fram. Thiago hefur verið orðaður við Liverpool frá því að keppnistímabilinu lauk í Þýskalandi. 

Nú síðustu daga hafa fjölmiðlar fjallað um meintan áhuga Liverpool á Ismaila Sarr útherja Watford. Ismaila, sem er frá Senegal, spilaði vel með Watford á leiktíðinni en liðið féll eftir slaka leiki á lokakaflanum. 


Ljóst varð fyrir nokkrum vikum að Þjóðverjinn Timo Werner kemur ekki til Liverpool. Hann fór til Chelsea frá Leipzig og svo virtist vera að forráðamenn Liverpool hafi látið hann eiga sig. Timo var búinn að lýsa yfir áhuga á að leika með Liverpool en hermt er að Chelsea hafi boðið honum mjög hátt kaup. Ekkert nýtt í því. 

Reyndar er talið að Liverpool ætli að kaupa fáa leikmenn í sumar. Allt er óljóst með leikmannamarkaðinn og hvað leikmenn koma til með að kosta. Svo eru sjóðir félaga ekki digrir eftir tekjuskort síðustu mánuði. Tveir af aðalliðsmönnunum, Adam Lallana og Dejan Lovren, eru farnir svo það þyrfti að stækka hópinn. Við sjáum hvað setur. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan