| Sf. Gutt

Náðum næstum fullkomnun!



Jürgen Klopp sagði eftir lokaleik leiktíðarinnar, þegar Liverpool vann Newcastle United, að árangur Liverpool í deildinni væri óvenjulega mikið afrek! 

,,Það sem sneri að knattspyrnunni á þessu ári var sannarlega magnað. Það var reyndar alveg með ólíkindum að ná 99 stigum. Ef við hugsum út í það þá byrjaði þetta eiginlega allt 1. júní 2019. Þá fór síðasti leikurinn á síðasta keppnistímabili fram en í raun var hann líka fyrsti leikurinn á alveg einstöku tímabili. Svo kom Stórbikar Evrópu, þá Heimsmeistarakeppni félagsliða og nú Úrvalsdeildin."


,,Að ná 99 stigum eftir að hafa endað með 97 í fyrra var sannarlega óvenjulegt afrek. Strákarnir hafa sýnt stöðugleika sem hefur varla þekkst áður. Við vissum reyndar að svona stöðugleiki var nauðsynlegur til að ná þessum árangri. Jú, við vorum vissulega svolítið óheppnir að 97 stigin sem við náðum í fyrra skyldu ekki duga til að ná settu marki. En við berum mikla virðingu fyrir keppinaut okkar og okkur var það fyllilega ljóst að ef við ættum að geta haft betur gegn þeim og enda ofar en þeir þá yrðum við að eiga svo til  fullkomna leiktíð. Strákarnir skiluðu svo til fullkominni leiktíð og þess vegna náðum við 99 stigum. Það er ekki vafi á því að þetta afrek á eftir að eiga sérstakan sess í minningasafni mínu!"


Svo til fullkomin leiktíð! Það stóð ekki annað til en að vinna deildina eftir að litlu munaði í fyrra og það var gert!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan