| Sf. Gutt

Þetta verður eins og á jólunum!


Annað kvöld verða Liverpool krýndir Englandsmeistarar í 19. sinn. Jürgen Klopp segir að þetta verði eins og jólin fyrir sig og aðra sem tengjast Liverpool! Jürgen hafði meðal annars þetta að segja á blaðamannafundi í dag. 

,,Þetta verður eins og á jólunum. Þú veist að þú ert að fá einhverja sérstaka gjöf en ert samt spenntur. Þetta verður sérstök stund og ég er í skýjunum með að strákarnir fá að njóta hennar."

,,Ef ég hugsa út frá starfsferli mínum þá verður það, að fá bikarinn í hendur, hundrað prósent einn af bestu dögum lífs míns. Allir eru búnir að bíða svo lengi eftir þessum titli. Fyrir tveimur til þremur árum datt engum í hug að við gætum náð þessum titli vegna þeirra hindranna sem við þurftum að yfirstíga, þurfum ennþá að yfirstíga og hversu keppinautar okkar eru sterkir. Já, ég held að ég verði stoltur. Ég verð stoltur af strákunum og öllu því sem við höfum unnið að saman hjá félaginu. Það er ekki nokkur vafi á því að þetta eru ákveðin tímamót!" 

Síðast þegar Liverpool tók við Englandsbikarnum endaði Kenny Dalglish feril sinn sem leikmaður með því að koma inn á sem varamaður þegar Liverpool vann Derby County 1:0 á Anfield. Jürgen var spurður hvort hann hugsaði sér að koma inn á annað kvöld þegar Liverpool mætir Chelsea. 

,,Nei, ég get sagt það strax að það kemur ekki til mála að ég komi inn á sem varamaður á morgun. Kannski eru það mikilvægustu upplýsingarnar fyrir alla!" 

Biðin er senn á enda! Jordan Henderson mun taka við Englandsbikarnum á Anfield annað kvöld!




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan