| Sf. Gutt

Jafntefli heima


Í fyrsta skipti frá því í janúar 2019 náði Liverpool ekki að vinna deildarleik á Anfield Road. Liverpool og Burnley skildu jöfn 1:1 í leik sem Liverpool átti að gera út um. 

Jürgen Klopp treysti tveimur af ungliðum sínum til að hefja leikinn. Neco Williams spilaði nú sína réttu stöðu, hægri bakvörð, og Curtis Jones kom inn á miðjuna. Curtis fékk fyrsta færið á 16. mínútu eftir fyrirgjöf Andrew Robertson en Nick Pope varði. Ekki í fyrsta skiptið sem hann bjargaði Burnley. Rétt á eftir kom löng sending inn í vítateig Burnley. Sendingin skapaði usla í vörninni og Mohamed Salah fékk boltann en Nick varði skot hans sem stefndi upp í hornið. 

Á 33. mínútu varð misskilningur í vörn gestanna og Mohamed fékk færi en Nick varði með úthlaupi. Mínútu síðar komst Liverpool yfir. Eftir góðan samleik fékk Fabinho Tavarez boltann fyrir utan teiginn. Hann lyfti boltanum til hægri inn í teiginn. Þar kom Andrew á fullri ferð og skallaði boltann glæsilega í netið út við fjærstöngina. Frábært mark hjá Skotanum sem var kominn öfugu megin á völlinn þaðan sem hann skoraði!

Á lokaandartökum hálfleiksins lék Sadio Mané sig í skotstöðu í vítateginum og náði föstu skoti sem stefndi upp í vinkilinn en Nick varði meistaralega. Síðasta spark hálfleiksins!

Liverpool hafði sem fyrr öll völd eftir hlé en gestirnir vörðust vel. Á 49. mínútu sendi Mohamed góða sendingu fram á Roberto Firmino sem skaut vinstra megin í teignum. Boltinn fór framhjá Nick í markinu en hafnaði í stönginni fjær. Ótrúleg óheppni Roberto sem hefur ekki enn skorað deildarmark á heimavelli á keppnistímabilinu! Litlu seinna braust Curtis Jones fram fékk boltann í vítateignum en skot hans fór rétt framhjá.

Sem fyrr hafði Liverpool yfirhöndina en Burney voru ekki af baki dottnir og sköpuðu hættu í föstum leikatiðum. Á 69. mínútu fékk Burnley aukaspyrnu vegna rangstöðu sem var reyndar ranglega dæmd. Boltinn var langur hátt fram að vítateignum. Þar vann leikmaður Burnely skallaeinvígi og skallaði til hliðar inn í vítateiginn á Jay Rodriguez sem hitti boltann vel og skoraði með föstu skoti neðst í  hornið. 

Það gekk á ýmsu síðustu tíu mínúturnar. Á 83. mínútu tók Andrew rispsu vinstra megin. Varamaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson renndi sér á eftir Skotanum og sópaði honum niður. Leikmenn Liverpool vildu fá víti en ekkert var dæmt. Hugsanlega strauk Jóhann boltann áður en hann sópaði Andrew niður en það hefði átt að dæma víti. 

Þegar þrjár mínútur voru eftir fékk Burnley horn. Eins og oft áður var hart sótt að Alisson en hann náði þó að kýla boltann frá. Ekki þó mjög langt og boltinn fékk fyrir Jóhann Berg sem skaut að marki en sem betur fer fór boltinn í þverslána og hátt í loft upp af henni. Í viðbótartíma hefði Liverpool átt að ná sigri. Trent Alexander-Arnold, sem kom inn á sem varamaður, gaf fyrir frá hægri. Hann hitti beint á Moahmed sem skaut viðstöðulaust með hægri. Hann hitti þó boltann ekki nógu vel og Nick varði skotið sem var laust. 

Jafntefli varð niðurstaðan. Leikmenn Burnley börðust vel en Liverpool átti að gera út um leikinn. Þetta var dæmi um leik þar sem markmaður bjargar liði sínu frá tapi. 

Liverpool: Alisson; Williams (Alexander-Arnold 69. mín.) , Gomez, van Dijk, Robertson; Wijnaldum (Oxlade-Chamberlain 81. mín.), Fabinho, Jones (Keita 69. mín.); Salah, Firmino og Mané. Ónotaðir varamenn: Adrian, Lovren, Minamino, Shaqiri, Origi og Elliott.

Mark Liverpool: Andrew Robertson (34. mín.).

Gult spjald: Joe Gomez.

Burnley:
 Pope; Bardsley, Tarkowski, Long, Taylor; Pieters (Jóhann Berg Guðmundsson 65. mín.), Westwood, Brownhill, McNeil; Rodriguez og Wood (Vyrda 65. mín.). Ónotaðir varamenn: Peacock-Farrell, Brady, Thompson, Dunne, Benson, Goodridge og Driscoll-Glennon.

Mark Burnley: Jay Rodriguez (69. mín.). 

Gul spjöld: Phil Bardsley og Nick Pope.   

Maður leiksins: Fabinho Tavarez. Brsilíumaðurinn var stórgóður á miðjunni og stjórnaði öllu. 

Jürgen Klopp: Mér líður eins og við höfum tapað leiknum. Ég veit þó að svo var ekki. Við áttum að skora fleiri mörk en við náðum ekki að gera það. Við getum bara sjálfum okkur um kennt. Engum öðrum.

Fróðleikur

- Andrew Robertson skoraði þriðja mark sitt á leiktíðinni. 

- Þetta var í fyrsta sinn frá því í janúar 2019 sem Liverpool vinnur ekki deildarleik á Anfield Road. Þá gerði Liverpool 1:1 jafntefli við Leicester City. 

- Fyrir leikinn í dag hafði Liverpool unnið 24 deildarleiki í röð á Anfield. Það er met í efstu deild.  

- Jafnteflið þýðir að Liverpool náði ekki að vinna alla heimaleiki sína í deildinni. Það hefur aðeins einu sinni verið afrekað í efstu deild í sögu ensku knattspyrnunnar. Sunderland gerði það á þar síðustu öld. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan