| Sf. Gutt

Fyrir tíu árum!


Í dag eru tíu ár liðin frá því að tilkynnt var að Roy Hodgson hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri Liverpool. Hann þótti rétti maðurinn til að taka við Rafael Benítez en á daginn kom að það var ekki rétt mat og hálfu ári seinna lét hann af starfinu.


Roy Hodgson hafði víða farið á ferli sínum og næst á undan hafði hann stýrt Fulham. Þar náði hann góðum árangri, bjargaði liðinu einu sinni frá falli og kom því í úrslit Evrópudeildarinnar vorið 2010 þar sem það tapaði 2:1 fyrir Atletico Madrid. Stjórn Liverpool F.C. þótti Rafael Benítez vera kominn út á enda með liðið og allt var í rugli hjá eigendum félagsins þeim George Gillett og Tom Hicks. Roy var talinn góður kostur við erfiðar aðstæður og reynsla hans myndi nýtast vel til að koma lagi á hlutina. Annað kom á daginn.


Roy sagði meðal annars þetta þegar hann tók við starfinu. ,,Þetta er stærsta starfið í knattspyrnuheiminum og mér er það mikill heiður að taka við stöðu framkvæmdastjóra sigursælasta knattspyrnufélags á Bretlandi. Ég hlakka til að hitta leikmennina, stuðningsmennina og koma mér að verki á Melwood." Eins og aðrir sem taka við nýju starfi þá ætlaði Roy Hodgson sér að standa sig vel. 


Segja má að allt hafi gengið á afturfótunum hjá Roy. Eigenda vandræðin voru ekki til að hjálpa til en þau leystust þó í október þegar John Henry og félagar björguðu Liverpool F.C. Innan vallar gekk illa og þann 8. janúar 2011 var tilkynnt að Roy Hodgson væri hættur sem framkvæmdastjóri Liverpool og Kenny Dalglish hefði tekið við. Í stað þess að Roy væri rétti maðurinn til að taka við Liverpool kom í ljós að hann var rangur maður á röngum stað og röngum tíma.


Nokkrum vikum eftir að Roy Hodgson hætti hjá Liverpool tók hann við West Bromwich Albion. Hann var svo ráðinn landsliðsþjálfari vorið 2012. Hann stýrði landsliðinu til 2016. Roy tók við stjórn Crystal Palace haustið 2017 er er ennþá þar.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan