| Sf. Gutt

Fyrrum framkvæmdastjórar hylla meistarana



Allir þeir sem tengjast Liverpool gleðjast þessa dagana. Fáir kannski meir en fyrrum framkvæmdastjórar Liverpool sem lögðu allt í sölurnar fyrir félagið. Hver á sínum tíma. Hér hylla fimm þeirra nýju Englandsmeistarana. 






Kenny Dalglish: ,,Titillinn er verðskuldaður. Þetta er ekki nein heppni. Fyrir ári voru þeir einu stigi frá titlinum. Í þessari leiktíð hafa þeir bara tapað einum leik og gert tvö jafntefli. Í fyrra vann liðið Heimsmeistarakeppni félagsliða og líka Meistaradeildina. Áfram með smjörið. Ég held að við getum hlakkað til fleiri gleðidaga á meðan Jürgen er hérna."


Graeme Souness: ,,Þetta er lið er stórkostlegt. Ekki bara á þessu keppnistímabili heldur síðustu tvö árin. Það komst í úrslit Meistaradeildarinnar, tapaði fyrir Madrid en kom aftur ári seinna og vann keppnina. City hafði betur í baráttu um deildartitilinn í fyrra. En þetta lið er alveg einstakt. Ef maður horfir til næstu ára þá er svo sem ekki hægt að fullyrða að þetta lið vinni deildina á hverju einasta ári en það verður í baráttu um að vinna þennan titil og aðra stórtitla svo sem Evrópubikarinn. Þetta er einstakt lið sem enginn hefur gaman af að fást við. Þú þarft að vera tilbúinn að fara í stríð þegar þú mætir liðinu. Þegar leikmenn liðsins ganga yfir hvítu línuna þá berjast allir leikmenn þess af öllum kröftum fyrir málstaðinn því framkvæmdastjórinn er búinn að krefjast þess að þeir geri svo. Þegar við það hugarfar bætist hversu góðir sóknarmennirnir eru og hvað vörnin er sterk þá kemur út mögnuð liðsheild og framúrskarandi lið!"


Rafael Benítez: ,,Til hamingju @LFC, eftir 30 ár rættist draumurinn! Ég gleðst innilega fyrir hönd allra Rauðliða! You´ll never walk alone #YNWA #Champions #Liverpool


Roy Hodgson: ,,Mér fannst þetta tímaskeið hefjast fyrir tveimur eða þremur árum. Jürgen var ekki lengi að setja mark sitt á félagið og það fór greinilega að færast í rétta átt. Frábærir leikmenn hafa verið fengnir til félagsins síðustu tvö árin eða svo ogsvo eiga þeir líka frábæra uppalda leikmenn. Trent Alexander-Arnold er besta dæmið. Félagið er því í frábærri stöðu og ég yrði undrandi ef ráðamenn félagsins væri ekki farnir að líta til þess að leggja drög að nýju velgengnistímabili. En það verður ekki auðvelt. Önnur félög eru fjársterk og svo eru líka frábær lið á sveimi eins og Manchester City. En það er augljóst mál að Liverpool hefur verið langbesta liðið á leiktíðinni. Forysta liðsins sýnir það og sannar. Það verða varla margir sem ekki vilja gleðjast fyrir þeirra hönd. Nú fagnar Liverpool réttilega velgengni sem lengi hefur verið beðið eftir á þeim bænum"


Brendan Rodgers: Þetta er mikil stund í sögu félagsins. Ég fann það vel þegar ég var þarna hversu sterk þráin eftir Englandsmeistaratitlinum var. Ég er sérstaklega ánægður með Jürgen og hvernig liðið hefur þróast. Ég er í skýjunum fyrir hönd Jordan Henderson og stuðningsmannanna. Hvert sem þú ferðast um heiminn þá finnur þú þúsundir stuðningsmanna liðsins. Þegar rétti tíminn gefst þá munu leikmenn fagna með stuðningsmönnum sínum. Ég sendi hamingjuóskir til Jürgen í gær. Líka til eigandanna og til Jordan en ég þekki hann mjög vel."

Frá því Liverpool varð Englandsmeistari 1990 hafa Roy Evans og Gérard Houllier, auk þessara sem hér hylla meistarana að ofan, stýrt Liverpool. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan