| Sf. Gutt

Yfirburðasigur á Crystal Palace!

Liverpool vann í kvöld 4:0 yfirburðasigur á Crystal Palace á Anfield Road. Evrópumeistararnir Eftir sigurinn vantar Liverpool aðeins tvö stig til að verða Englandsmeistari í 19. skipti!

Það var undarlegt að sjá Musterið mannlaust fyfir leikinn. Hópur stuðningsmanna Liverpool hafði fengið leyfi til að skreyta The Kop fyrir nokkrum dögum svo stúkan magnaða skartaða sínu fegursta. Þjóðsögnurinn var spilaður fyrir leikinn án undirspils þúsunda stuðningsmanna Liverpool. En svona er veruleikinn á tímum heimsfaraldurs sem náði að hægja á Liverpool en ekki stoppa!

Mohamed Salah og Andrew Roberton léku ekki á móti Everton. Andrew var ekki í hópnum og Mohamed á bekknum. Þeir komu báðir inn í byrjunarliðið í kvöld. 

Eftir dauflegt jafntefli við Everton í borgarslagnum á sunnudaginn gagnrýndu sumir stuðningsmanna Liverpool liðið og töldu það vera búið að missa taktinn. Leikmenn hefðu verið sofandalegir og svo framvegis. En strax frá fyrstu mínútu í kvöld mátti sjá rétta andlit leikmanna Liverpool. Þeir óðu um völlinn  og gáfu leikmönnum Crystala Palace ekki stundlegan frið til að gera hvorki eitt né neitt. Það þurfti ekki viðstadda áhorfendur til að hvetja leikmenn Liverpool til dáða.


Liverpool braut svo ísinn á heitasta degi ársins á Bretlandi með marki á 23. mínútu. Liverpool fékk aukaspyrnu rétt utan við vítateiginn. Trent Alexander-Gordon tók spyrnuna og skoraði með föstu hnitmiðuðu skoti sem hafnaði ofarlega úti við stöng án þess að markmaður Palace ætti nokkra einustu möguleika. Glæsilegt mark!

Á 28. mínútu klippti Jordan Henderson boltann á lofti í vítateignum en skot hans fór í stöng. Boltinn hrökk út á Virgil van Dijk, hann náði ekki að hitta boltann vel og varnarmaður komst fyrir og bjargaði í horn. Eftir hornið héldu tveir leikmenn Virgil og rifu hann niður. Ekki löngu seinna hefði Liverpool aftur átt að fá víti en þá boltinn fór greinilega í hönd varnarmanns þegar Roberto Firmino reyndi að komast framhjá honum. 


Mínútu fyrir leikhlé bætti Liverpool verðskuldað við marki. Fabinho Tavarez lyfti boltanum inn fyrir vörn Palace á Mohamed Salah sem lagði boltann fyrir sig með brjóstkassanum áður en hann skoraði með öruggu skoti. Örugg afgreiðsla hjá Egyptanum!

Fimm mínútum eftir hlé gerði Liverpool endanlega út um leikinn. Andrew Robertson renndi boltanum þvert til hægri á Fabinho Tavarez. Brasilíumaðurinn stillti miðið og hamraði boltann í markið með einu fastasta skoti sem lengi hefur sést á Anfield! Stórglæsilegt mark!

Yfirburðir Liverpool voru ótrúlegir og sem dæmi má nefna að ekki einn einasti leikmaður Crystal Palace komst með boltann inn í vítateig Liverpool í öllum leiknum!

Á 63. mínútu átti Mohamed gott bogaskot frá hægri sem fór rétt framhjá. Sex mínútum seinna á Liverpool fallega sókn sem Skytturnar þrjár átti allan heiður af. Roberto sendi fram á Moahmed sem sendi hárnákvæma viðstöðulausa sendingu inn fyrir vörn Palace. Sadio Mané stakk vörnina af og lék fram vinstra megin inn í vítateginn þaðan sem hann skoraði með öruggu skoti neðst í hornið fjær! Fjórða glæsimark leiksins. 

Í viðbótartímanum hefði Liverpool getað skorað þrjú mörk. Fyrst komst Mohamed inn í vítateiginn en Wayne Hennessey varði skot hans. Varamaðurinn Neco Williams ógnaði svo tvisvar sinnum. Fyrst komst varnarmaður fyrir skot hans og svo varði Wayne. 

Sigurinn hefði sannarlega getað verið stærri. En hann var svo sem nógu stór. Eftir dauflegan leik á móti Everton sem þurfti ekki að koma á óvart þá sýndi Liverpool einn besta leik sinn á leiktíðinni. Það þurfti ekki áhorfendur til að drífa liðið áfram. Alla vega ekki áhorfendur á Anfield. Reyndar var Sir Kenny Dalglish í stúkunni! Þremur stigum nær Englandsmeistaratitlinum og tveimur stigum frá honum! Það er að hafast að koma titlinum í hús. Hann gæti meira að segja komið í hús annað kvöld ef meistarar Manchester City ná ekki að vinna Chelsea í London!

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold (Williams 74. mín.), Gomez, van Dijk, Robertson (Elliott 84. mín.), Henderson (Oxlade-Chamberlain 64. mín.), Fabinho, Wijnaldum, Salah, Firmino (Minamino 74. mín.) og Mané (Keita 84. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Lovren, Origi og Jones. 

Mörk Liverpool: Trent Alexander-Arnold (23. mín.), Mohamed Salah (44. mín.), Fabinho Tavarez (55. mín.) og Sadio Mané (69. mín.).

Crystal Palace: Hennessey, Ward, Cahill, Sakho, van Aanholt, McCarthy, Townsend, Kouyaté (Milivojevic 66. mín.), Arthur (Riedewald 66. mín.), Zaha (Meyer 15. mín.) og Ayew (Pierrick Keutcha 84. mín.).Ónotaðir varamenn: Henderson, Dann, Tavares og Mitchell.

Áhorfendur á Anfield Road: Engir. 

Maður leiksins: Fabinho Tavarez. Brasilíumaðurinn var frábær. Hann braut sóknir á bak aftur, byggði upp sóknir, lagði upp mark og skoraði eitt það fallegasta á leiktíðinni. Frábær á alla kanta!


Jürgen Klopp: Það má ímynda sér leikvanginn fullan af áhorfendum í dag og hvernig áhorfendur hefðu upplifað leikinn með eigin augum. Reyndar held ég að strákarnir mínir hefðu ekki getað spilað betur þó völlurinn heðfi verið fullur. Stemmningn úti á vellinum var alveg mögnuð. Strákarnir eru í góðu formi og vel stemmdir. Það var mikilvægt að sýna stuðningsmönnum okkar að við erum enn með á nótunum og við ætlum ekki að bíða eftir neinu!


Fróðleikur

- Liverpool vantar nú tvö stig til að verða Englandsmeistari í 19. sinn. 

- Trent Alexander-Arnold skoraði sitt þriðja mark á keppnistímabilinu. 

- Mohamed Salah skoraði 21. mark sitt á leiktíðinni. 

- Hann er búinn að skora 15 deildarmörk í jafnmörgum leikjum á Anfield. 

- Fabinho Tavarez skoraði annað mark sitt á sparktíðinni. 

- Sadio Mané skoraði í 19. sinn. 

- Sadio er búinn að skora í sex síðustu leikjum sínum á móti Crystal Palace. 

- Liverpool er nú búið að skora 100 mörk í öllum keppnum á leiktíðinni. Markið hjá Trent var númer 100! 

- Andrew Robertson lék sinn 120. leik með Liverpool. Hann hefur skorað þrjú mörk. 

- Alex Oxlade-Chamberlain spilaði sinn 80. leik með Liverpool. Hann er búinn að skora 12 mörk.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan