| HI

Klopp lofar skrúðgöngu - ef titillinn vinnst

Jürgen Klopp segir að ef Liverpool lyftir Englandsmeistaratitilinum sem er innan seilingar verði skrúðganga fyrir stuðningsmenn. Hann tekur þó fram að ekkert sé unnið ennþá en Liverpool vantar ennþá sex stig til að gulltryggja titilinn. Og þeir geta stigið fyrsta skrefið til þess 20. júní, þegar Liverpool mætir Everton í fyrsta leik sínum eftir hléið sem orðið hefur á deildinni vegna Covid 19 faraldursins.

„Við erum ekki ennþá orðnir meistarar. Við þurfum að spila fótboltaleiki og þurfum að vinna þá. Við vitum að við erum nálægt þessu en það þýðir ekki að við séum komnir á leiðarenda. Það eru ennþá 27 stig í pottinum og við gerum okkar besta til að ná þeim öllum. Við hættum ekki að tala um að vinna eftir þessa tvo leiki, eða hvað sem það verður. Ég sé ekki nein úrslit skrifuð í skýin - við þurfum alltaf að hafa fyrir því.“

Ef allt fer eins og stefnir í verður þó bið á hefðbundinni fagnaðarskrúðgöngu því enn eru aðgerðir í gangi vegna faraldursins. Þegar hann er spurður hvernig titlinum yrði fagnað segir Klopp. „Það er alltaf fagnað, sama hvar. Ef við verðum meistarar fögnum við saman sem lið. Og um leið og við megum fagna með stuðningsmönnunum þá gerum við það aftur. Ég lofa því að ef það gerist verður skrúðganga. Einhvern tímann - og hverjum er ekki sama hvenær það verður?“
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan