| Sf. Gutt

Það var fyrir 15 árum!


Þeir munu aldrei gleyma þessu. Reyndar munu fáir munu gleyma þessu. Endurkoma Liverpool eftir að hafa verið 3:0 undir gegn AC Milan í úrslitaleik Meistaradeildarinnar var vörðuð atvikum sem aðeins er hægt að láta sig dreyma um.
 
Fyrst. Spenna. Hin langa ganga að leikvanginum og rigningin sem helltist yfir Ataturk Ólympíuleikvanginn. Því næst fyrri hálfleikurinn. Angist. Leikmenn Liverpool voru dáleiddir af leikmönnum Milan sem sýndu knattspyrnu sem jafnaðist við sumt af því best sem nokkurn tíma hefur sést í þeirri íþrótt. Leikhlé. Baráttuandi. "You'll Never Walk Alone". Dietmar Hamann kom inná. Skallinn frá Steven Gerrard. Von. Snaggaralegt skot frá Vladimir Smicer. Spenna. Xabi Alonso tók frákastið eftir misheppnaða vítaspyrnu og jafnaði. Tryllingur. Hin tvöfalda markvarsla Jerzy Dudek. Vítaspyrnukeppni. Ótti. En á endanum vannst sigur. Stolt.
 

 
Rafa Benitez (Spánski þjálfarinn sem hélt hálfleiksræðuna): Við bjuggum að því sjálfstrausti sem við öðluðumst eftir að hafa leikið mjög, mjög vel í öðrum leikjum. Það sjálfstraust kom upp á yfirborðið í síðari hálfleiknum gegn AC Milan og við sýndum hvað í okkur bjó með því að koma til baka eftir að hafa verið 0:3 undir. Við áttum líka stuðningsmennina okkar að. Við heyrðum þá syngja You'll Never Walk Alone í leikhléinu. Það var ótrúlegt. Söngur þeirra veitti okkur sjálfstraust og styrk.
 

Sami Hyypia (Finnski kletturinn í vörninni): Það voru ekki margir sem töldu að við ættum nokkra einustu möguleika í leikhléinu. Ef ég á að vera alveg heiðarlegur þá held ég að leikmennirnir hafi ekki haft neina trú á sigri heldur. En sem lið þá ákváðum við að að leggja okkur alla fram og gefa stuðningsmönnunum okkur eitthvað til baka. Til að byrja með þá held ég að við höfum bara verið að vonast eftir sárabótarmarki svo að stuðningsmennirnir gætu þá loksins glaðst yfir einhverju. En þegar við skoruðum annað markið fór ég að hugsa að við gætum kannski unnið leikinn.
 

Dietmar Hamann (Þýski miðjumaðurinn sem kom inn sem varamaður í hálfleik): Jú, vissulega breyttist gangur leiksins eftir leikhlé en ég veit ekki hversu mikil áhrif ég hafði í því máli. En eftir hlé vorum við miklu grimmari, unnum boltann miklu oftar og sköpuðum okkur miklu fleiri marktækifæri. Að vinna Meistaradeildina er mesta afrek sem ég hef átt þátt í með félagsliði. Það var einfaldlega ótrúlegt að leika fyrir hönd Liverpool í úrslitaleik og ná að vinna leikinn eftir að hafa verið 0:3 undir.

Xabi Alonso (Spánski miðjumaðurinn sem jafnaði leikinn eftir að hafa náð frákasti í kjölfar misnotaðrar vítaspyrnu): Tilfinningin sem fylgdi því að lyfta bikarnum var ólýsanleg. Borgin og félagið voru búin að bíða eftir þessu augnabliki í tuttugu ár.
 

Jerzy Dudek (Pólski markvörðurinn sem varði svo eftirminnilega í tvígang frá Andrei Shevchenko. Sú markvarsla féll aðeins í skuggann af danssporunum sem hann tók í vítaspyrnukeppninni):
Það var ekki lagt á ráðin með neitt af þessu fyrir leikinn því við áttum ekki von á að úrslitin myndu ráðst svona. En einn af leikmönnunum, Jamie Carragher, gaf mér ráð. Þau fólust í því að reyna að setja pressu á andstæðingana því það kemur alltaf á óvart, og þá sérstaklega í stórkeppni, þegar menn sjá markvörð hreyfa sig fram og aftur á marklínunni.
 

Djibril Cisse (Franski sóknarmaðurinn sem skoraði í vítaspyrnukeppninni): Auðvitað var ég taugaóstrykur. Ég hugsa að enginn myndi halda öðru fram. Ég einbeitti mér fullkomlega að því að skjóta boltanum á ákveðinn stað og sem betur fer þá fór boltinn í markið. Ég fann fyrir gríðalega miklum létti. Stuðningsmennirnir voru ótrúlegir. Ég held að hálf milljón manna hafi verið á götum Liverpool daginn eftir. Þeir Steven Gerrard og Jamie Carragher sögðu mér að þetta ættu eftir að verða einstakar móttökur. En þær reyndust algerlega ofar öllum skilningi.
 

Steven Gerrard (Enski miðjumaðurinn og fyrirliði Liverpool sem skoraði fyrsta markið og fékk svo dæmda vítaspyrnu): Það var frábært að spila í þessum leik. Allt gekk okkur í mót í fyrri hálfleik en í þeim síðari gekk allt að óskum. Þetta var sannarlega leikjur tveggja hálfleikja. En það stórkostlegasta á þessu frábæra og tilfinningaþrungna kvöldi var að lyfta bikarnum á loft.
 

 
Þessi grein birtist á FIFA.com.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan