| HI

Æfingar hafnar á ný: Eins og fyrsti skóladagurinn

Leikmenn Liverpool sneru aftur til æfinga á Melwood í morgun eftir ríflega tveggja mánaða fjarveru vegna Covid 19 faraldursins. Leikmennirnir hafa á þeim tíma æft heima eftir sérstöku prógrammi. Æfingin var þó ekki hefðbundin því leikmennirnir æfðu ekki allir saman heldur í smærri hópum.

Jürgen Klopp segir þennan dag hafa verið sérlega ánægjulegan. „Ég vaknaði óvenju snemma í morgun og áttaði mig þá á því að þetta væri fyrsti æfingadagurinn. Mér leið eins og þetta væri fyrsti skóladagurinn - í mínu tilviki var að fyrir 46 árum en ég held að tilfinningin hafi verið svipuð. Ég er aðeins búinn að hitta tíu af strákunum og þjálfarana en það er góð byrjun.“

Klopp segir þetta að mörgu leyti minna á undirbúningstímabil, þó að munur sé á. „Vanalega fá leikmennirnir 2-3 vikur í frí. Nú voru þeir í 9 vikur í burtu, en ekki í fríi. Það góða við það er að leikmenn fá loksins góða hvíld. En á hinn bóginn er ekki hægt að hvílast almennilega meðan maður hefur áhyggjur af ástandinu í heiminum. Menn eru því ekki jafn áhyggjulausir og í venjulegu fríi. En þetta er staðan.“ Hins vegar sé fylgst með ástandi leikmanna og tryggt að það sé eins gott og hægt er, og að því leyti sé þetta eins og undirbúningstímabil.

Klopp segir að allir leikmenn séu heilir. „Strákarnir eru með bros á vör og í góðu skapi. Þetta var góð æfing, en ekki of erfið.“

Hér má sjá myndasyrpu af æfingunni á heimasíðu LFC.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan