| HI

Greip í "hneturnar" á dómaranum

Mark Clattenburg fyrrverandi dómari í ensku úrvaldsdeildina hefur nefnt fimm leikmenn sem fóru mest í taugarnar á honum. Einn þeirra lék með Liverpool - átti tvö árs tímabil þar, fyrst 2006-2007 og svo aftur 2011-2012. Þetta er Craig Bellamy, og samskipti þeirra félaga voru oft nokkuð skrautleg.

Clattenburg dæmdi í ensku úrvalsdeildinni í 13 ár en hætti árið 2017 til að dæma í kínversku deildinni. Hann fjallaði um Bellamy og fjóra aðra leikmenn í föstum dálki sínum í Daily Mail.

„Ég vissi að samband mitt við hann var viðkvæmt þegar hann greip í „hneturnar“ á mér í göngunum á Etihad-vellinum - og ég er þá ekki að tala um neinn mat þar! Ég held að þetta hafi átt að vera grín, í það minnsta tók ég því þannig, en það var smá saga á bak við þetta.

Þá sögu má rekja aftur til ársins 2009 þegar hann lék með Manchester City og ég rak hann útaf í útileik gegn Bolton. Ég hafði gefið honum gult spjald fyrir mótmæli og hefði alveg getað gefið honum rautt þá - munnsöfnuðurinn var slíkur. Svo gaf ég honum annað gult spjald fyrir leikaraskap, en endursýningin leiddi í ljós að hann hefði átt að fá víti. Ég gerði mistök. Hann trylltist eins og menn geta ímyndað sér.

En orðspor Bellamys vann gegn honum hjá mörgum dómurum og hann fékk oft ekki að njóta vafans. Ég sagði einu sinni við einn af þjálfurum City í hálfleik á einum leik: „Hvernig þolið þið hann svona dags daglega?“ Ég var klagaður fyrir þetta, sem ég var vonsvikinn með. Það sem sagt er í leiknum á ekki að fara lengra. Ef ég tilkynnti allt sem þeir sögðu væru menn stöðugt í leikbönnum. En Bellamy var algjör martröð fyrir dómara, flestir þeirra voru sammála því. Hann var sífellt að fórna höndum og öskra á þá, stöðugt að ögra þeim. Og orðbragðið var ömurlegt.

Þar sem ég er stuðningsmaður Newcastle slapp ég við að dæma leiki með honum í upphafi ferils hans. Ég vildi að hann hefði haldið sér þar aðeins lengur!“

Þess má geta að hinir fjórir leikmennirnir sem Clattenburg nefndi sem erfiða voru Roy Keane, Jens Lehman, Jon Obi Mikel og Pepe.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan