| HI

Æfingasvæðið í Kirkby tefst


Nýtt æfingasvæði átti að vera tilbúið í Kirkby í sumar. Framkvæmdir hafa legið niðri síðan á mánudag þegar Boris Johnson kom á útgöngubanni í Bretlandi vegna Covid 19, og bannaði þar með alla starfsemi sem ekki er lífsnauðsynleg. Það þýðir að það er býsna tæpt að æfingasvæðið verði tilbúið þegar undirbúningstímabilið hefst.

Það fer reyndar eftir því hvenær undirbúningstímabilið hefst. Eins og staðan er núna hefst keppni í ensku úrvalsdeildinni aftur í lok apríl, og þar sem búið er að fresta Evrópumótinu hefst næsta undirbúningstímabilið seinna en venjulega. Yfirleitt hefjast æfingar fyrir keppnistímabil í byrjun júlí en ef þessi áætlun stenst verður það eitthvað seinna. Sem gæti þá gefið nægan tíma til að ljúka framkvæmdum á æfingasvæðinu.

Talsmaður Liverpool FC staðfesti við Liverpool Echo að framkvæmdum hefði verið hætt tímabundið þar sem verktakinn hafi hætt öllum sínum framkvæmdum meðan á útgöngubanninu stendur. Það sé til að tryggja öryggi starfsmanna sinna.

Ef ekki tekst að ljúka framkvæmdum í Kirkby getur Liverpool FC notað æfingasvæðið á Melwood áfram. Félagið getur haldið því svæði eins lengi og það telur sig hafa þörf á því. Þar hefur ekki verið æft í rúmar tvær vikur og ekki hefur verið ákveðið hvenær menn snúa aftur. 

Ljóst er þó að æfingasvæðið í Kirkby verður á heimsmælikvarða þegar það verður tekið í notkun. Það verða tveir líkamsræktarsalir, knattspyrnuhús í fullri stærð, sundlaug og sérstök endurhæfingarherbergi fyrir menn í meiðslum. 

Vonandi verður það tilbúið sem fyrst.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan