| Sf. Gutt

Hvað getur gerst?Nú er hlé í ensku knattspyrnunni og reyndar víðar vegna útbreiðslu Covid – 19 veirunnar. En hvernig verður leiktíðinni lokið? Hér eru helstu möguleikarnir skoðaðir. Horft er til Úrvalsdeildarinnar á Englandi í þessari umfjöllun. 


- Þráðurinn tekinn upp að nýju. Það er keppni í deildinni hefst, hvenær sem það verður, þaðan sem frá var horfið þegar deildarkeppninni var frestað á föstudaginn var. Úrslit í deildinni myndu ráðst á venjulegan hátt. Vonandi verður þetta raunin!- Keppni hæfist þegar hægt verður en leikir yrðu leiknir fyrir luktum dyrum. Það er að segja áhorfendum yrði ekki hleypt inn á leikvanga vegna smithættu. Hugsanlegt og vel framkvæmanlegt!

- Mótinu aflýst og gert ógilt. Í þessu tilfelli yrði mótinu hætt og ekkert leikið meira fyrr en á næsta keppnistímabili. Engir meistarar krýndir og engin lið myndu falla. Mótið 2019/20 yrði einfaldlega ekki vera talið með. Það yrði óhæfa ef þetta yrði að ráði! Það er svo lítið eftir af mótinu að engum ætti að detta þessi möguleiki í hug!

- Keppni hætt í deildarkeppninni. Ef þetta ráð yrði tekið þá yrði mótinu slitið og núverandi staða myndi ráða niðurstöðunni. Liverpool yrði Englandsmeistari og neðstu liðin myndu falla. Hugsanlegt en samt ekki réttlátt gagnvart þeim liðum sem eru að berjast við fall og Evrópusæti!


Málið skýrist væntanlega mikið í dag þegar Knattspyrnusamband Evrópu fundar um hvort fresta eigi úrslitakeppni Evrópukeppni landsliða. Keppnin á að fara fram í sumar. Það er vel framkvæmanlegt að fresta keppninni annað hvort þangað til í desember eða þá til næsta sumars. Þessir tveir kostir hafa verið nefndir.


Ef keppninni yrði frestað myndi skapast tími til að klára deildarkeppnirnar þó keppni myndi dragast fram á sumarið. Vonandi hafa forráðamenn UEFA vit á að fresta keppninni því þá verður fyrsti valkosturinn hér að ofan framkvæmanlegur. Heilbrigðissjónarmið ráða auðvitað ferðinni í öllu þessu en það þarf að skapa svigrúm til að ljúka deildarkeppninni á Englandi og víðar með viðunandi hætti ef nokkur kostur er. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan