| Sf. Gutt

Jose Reina fékk silfur


Jose Reina fyrrum markmaður Liverpool er kominn aftur í ensku knattspyrnuna. Hann gekk til liðs við Aston Villa í janúar sem lánsmaður frá AC Milan.

Spánverjinn fékk silfurverðlaun á Wembley á sunnudaginn en hann var þá varamaður hjá Aston Villa í úrslitaleik Deildarbikarsins. Manchester City vann Aston Villa 2:1. 

Jose Reina, sem hóf ferilinn hjá Barcelona, kom til Liverpool sumarið 2005 frá Villareal og var hjá liðinu til 2014. Leiktíðina 2013/14 var Jose í láni hjá Napoli. Hann var svo sparktíðina 2014/15 hjá Bayern Munchen. Þaðan fór hann til Napoli og spilaði þar til 2018 en þá gerði hann samning við AC Milan. 












Jose Reina er með betri markmönnum Liverpool í sögunni. Hann vann FA bikarinn með Liverpool 2006 og Samfélagsskjöldinn sama ár. Hann vann Stórbikar Evrópu 2005 og Deildarbikarinn 2012. Hann varð þýskur meistari með Bayern 2015 og ítalskur bikarmeistari með Napoli 2014.


Þess má til gamans geta að annar fyrrum markmaður Liverpool var á Wembley á sunnudaginn. Scott Carson er nú þriðji markmaður Manchester City. Hann var í liðshópnum en ekki á bekknum. Scott er í láni frá Derby County.

Jose Reina er búinn að spila fimm leiki með Aston Villa. Liverpool og Aston Villa eiga eftir að mætast það sem eftir er leiktíðar. Víst er að Spánverjinn á eftir að fá hlýjar viðtökur á Anfield verði hann valinn til að spila þennan leik. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan