| Sf. Gutt

Stoltur að vera orðaður við besta lið í heimi

Þjóðverjinn Timo Werner hefur verið orðaður við Liverpool síðustu mánuði. Hann segist stoltur yfir því að vera orðaður við besta lið í heimi!

,,Liverpool er besta lið í heimi um þessar mundir. Ég er mjög stoltur yfir því að vera orðaður við þetta lið! Já, þetta er ánægjulegt en ég veit að það er fullt af góðum leikmönnum í liði Liverpool." Timo sagði þetta í viðtali í gærkvöldi eftir 0:1 sigur Leipzig á Tottenham í Meistaradeildinni. Hann skoraði sigurmarkið úr víti. 

Timo leikur með RB Leipzig en er alinn upp hjá Stuttgart. Hann er búinn að vera hjá Leipzig frá því 2016. Þar hefur hann leikið mjög vel og skorað 86 mörk. Leipzig er sem stendur í harðri toppbaráttu í þýsku deildinni og hefur verið alla leiktíðina. Timo hefur skorað 25 mörk hingað til á keppnistímabilinu. 

Timo hefur leikið með þýska landsliðinu og skorað 11 mörk í 29 leikjum. Hann varð Álfumeistari með Þjóðverjum 2017 og varð markahæsti maður keppninnar.

Sem fyrr segir hefur Timo verið orðaður við Liverpool síðustu mánuði. Nú fyrir nokkrum dögum birtu fjölmiðlar fréttir þess efnis að forráðamenn Liverpool væru búnir að setja sig í samband við Leipzig um hugsanleg kaup á framherjanum. Hvort það er rétt skal ekki fullyrt.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan