| Sf. Gutt

Magnað afrek yngsta liðs Liverpool!




Yngsta lið í sögu Liverpool vann magnað afrek í kvöld þegar liðið komst áfram í FA bikarnum eftir 1:0 sigur á Shrewsbury Town í aukaleik liðanna í 4. umferð keppninnar. Kyngimögnuð kvöldstund á Anfield!

Jürgen Klopp og leikmenn aðalliðs Liverpool voru víðsfjarri í fríi eins og Jürgen lýsti yfir að myndi verða strax eftir jafntefli Liverpool og Shrewsbury á dögunum. Reyndar var einn leikmaður aðalliðsins á Anfield. James Milner mætti á leikinn og hjálpaði við að stappa stáli í piltana fyrir leikinn. Neil Critchley, þjálfari undir 23. ára liðs Liverpool, stjórnaði liðinu í annað sinn en hann gerði það í Deildarbikarleiknum á móti Aston Villa. 

Fimm leikmenn, Adam Lewis, Jake Cain, Liam Millar, Joe Hardy og Elijah Dixon-Bonner, spiluðu í fyrsta sinn í liði Liverpool. Adam, Jake og Liam voru í byrjunarliðinu. Aðrir leikmenn liðsins, fyrir utan varamarkmanninn Vitezslav Jaros, höfðu áður komið við sögu aðalliðsins en byrjunarliðið var samt það yngsta í sögu félagsins. Curtis Jones komst svo í annála með því að vera yngsti fyrirliði í sögu Liverpool!

Þrátt fyrir alla þessa ungu leikmenn þá var Liverpol sterkara liðið frá upphafi leiksins. Piltarnir léku vel sín á milli og voru mikið með boltann. Shrewsbury hélt sig til baka. Það var lítið um færi og það kom eiginlega bara eitt hættulegt færi í fyrri hálfleik. Á 34. mínútu braust Neco Williams inn í vítateiginn hægra megin en skot hans fór rétt framhjá stönginni fjær. Ekkert mark í hálfleik en Liverpool hafði verið betra liðið!

Eftir sjö mínútur í síðari hálfleik var Neco aftur á ferðinni. Harvey Elliott sendi fyrir frá vinstri. Neco fékk boltann frír hægra megin en Max O'Leary varði naumlega með fæti neðst í horninu. Á 58. mínútu skoraði Shrewsbury úr sínu fyrsta færi. Shaun Whalley skallaði þá í mark af stuttu færi eftir að  Caoimhin Kelleher hafði varið skot af stuttu færi. Eftir skoðun í sjónvarpi var markið dæmt af vegna rangstöðu fyrr í sókninni. Réttur dómur að þessu sinni. 

Á 70. mínútu gaf Pedro Chirivella inn í vítateiginn á Curtis Jones en hann hitti ekki boltann í góðu færi. Hann fékk boltann aftur en aftur náði hann ekki að hitta boltann og hættan leið hjá. Fimm mínútum seinna kastaði Max frá marki sínu. Neco stöðvaði sóknina með skalla og náði svo boltanum. Hann lék fram og sendi svo háa og langa sendingu inn að vítateig Shrewsbury sem var ætluð Harvey. Hann náði ekki boltanum því Ro-Shaun Williams skallaði boltann framhjá Max og beinustu leið í autt markið fyrir framan Kop stúkuna! Allt gekk af göflunum hvort heldur sem það var inni á vellinum eða uppi í stúkunum! Ógleymanlegt andartak sem lengi verður í minnum haft! Það segir sína sögu um hversu vel ungliðarnir spiluðu að mark Liverpool var aldrei í hættu það sem eftir var af leiknum. 

Fögnuðurinn var mikill þegar flautað var til leiksloka. Ungliðarnir kunnu sér ekki læti og fögnuðu með Neil Critchley þjálfara sínum. Áhorfendur hylltu piltana og þeir áttu hyllinguna sannarlega skilda. Uppselt var á Anfield og áhorfendur studdu frábærlega við liðið sitt. Þetta kvöld fer í annála Liverpool Football Club eins og svo margt á þessu magnaða keppnistímabili.  

Liverpool: Kelleher, Williams, Hoever, van den Berg, Lewis, Clarkson (Boyes 90. mín.), Chirivella, Cain, Elliott (Dixon-Bonner 90. mín.), Millar (Hardy 82. mín.) og Jones. Ónotaðir varamenn: Jaros, Gallacher, Bearne og Norris.

Mark Liverpool: Ro-Shaun Williams, sm, (75. mín.).

Gult spjald: Neco Williams.

Shrewsbury Town: O'Leary, Love, Ebanks-Landell, Williams, Golbourne, Pierre, Edwards, Laurent, Whalley (Walker 82. mín.), Lang (Udoh 57. mín.) og Goss (Cummings 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Murphy, Beckles, Sears og Hart.

Gul spjöld:
 Scott Golbourne og Donald Love.

Áhorfendur á Anfield Road: 52.399.

Maður leiksins: Neco Williams. Hægri bakvörðurinn var magnaður jafnt í sókn sem vörn. Hann lagði svo upp sigurmark leiksins. 


Neil Critchley: Maður getur auðvitað aldrei verið viss um hvernig ungir leikmenn standa sig en ég verð að segja að frá fyrstu mínútu sýndu strákarnir ótrulegan þroska í leik sínum. Ég varð bara rólegri á hliðarlínunni við að sjá þá spila. Mér fannst við eiga betri færi á þessum 90 mínútum og vorum verðskuldaðir sigurvegarar þetta kvöldið.


Fróðleikur

- Byrjunarlið Liverpool var það yngsta í sögu Liverpool. Meðalaldur liðsins var 19 ár og 109 dagar.

- Aðeins fjórir leikmenn úr byrjunarliðinu eru fæddir fyrir síðustu aldamót. Pedro Chrivella er fæddur árið 1997, Caoimhín Kelleher 1998 og árið 1999 er fæðingarár Laim Millar og Adam Lewis.

- Curtis Jones varð yngsti fyrirliði í sögu Liverpool. Hann var 19 ára og 5 daga gamall þegar hann leiddi Liverpool til leiks. 

- Adam Lewis, Jake Cain, Liam Millar, Joe Hardy og Elijah Dixon-Bonner spiluðu í fyrsta sinn fyrir Liverpool. 

- Liam Millar varð fyrsti Kanadamaðurinn til að spila fyrir aðallið Liverpool.

- Tékkneski markmaðurinn Vitezslav Jaros var í fyrsta sinn í aðalliðshóp Liverpool. 

- Ef allar keppnir eru taldar þá var þetta 40. leikur Liverpool í röð án taps á Anfield. Liverpool hefur unnið 35 leiki og gert fimm jafntefli í þessum 40 leikjum.

- Liverpool er komið í 16 liða úrslit í FA bikarnum. Liðið hefur aldrei komist jafn langt í keppninni á valdatíð Jürgen Klopp.

- Liverpool mætir Chelsea á Stamford Bridge í næstu umferð.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan