| Sf. Gutt

Stórsigur eftir þæfing

Liverpool lenti í þæfingi á móti Southampton en þegar upp var staðið unnu Evrópumeistararnir 4:0 stórsigur. Liðið er nú með metforystu í deildinni. 

Komið var að síðasta leik fyrir vetrarfríið margumrædda. Fabinho Tavarez kom inn í byrjunarliðið í fyrsta sinn eftir meiðsli og Divock Origi var settur á bekkinn. Annars var liði eins og á móti West Ham United. Lengi vel í fyrri hálfleik var engu líkara en sumir af leikmönnum liðsins væru komnir í sumarfrí. Eftir stundarfjórðung tók Mohamed Salah boltann með sér inn í vítateiginn og skaut að marki en varnarmaður komst fyrir og bjargaði í horn. Gestirnir voru argir því þeir töldu Mohamed hafa notað hendi til að taka boltann með sér. 

Southampton lék af miklum krafti og leikmenn Liverpool þurftu að hafa vel fyrir hlutunum. Eftir um hálftíma fékk Virgil van Dijk sendingu inn í vítateiginn. Hann fékk boltann fyrir miðju marki og reyndi hælspyrnu en Alex McCarthy varði. Roberto Firmino náði frákastinu en aftur varði Alex. Í framhaldinu kom sending frá hægri fyrir markið. Roberto reyndi að ná til boltans við marklínuna en það tókst ekki. Varnarmaður sótti að honum og sjónvarps dómarar skoðuðu málið en ekki var talið að brotið hefði verið á Roberto. Þó var að sjá að varnarmaðurinn hefði hendur á Roberto. 

Southampton endaði hálfleikinn vel. Á 36. mínútu átti Nathan Redmond skot sem bjargað var í horn. Ekki löngu seinna komst Danny Ings í góða stöðu en hann skaut í félaga sinn sem var heppilegt. Pierre-Emile Højbjerg kom svo skoti á markið en Alisson Becker. Ekkert mark í hálfleik en gestirnir hefðu vel getað hafa verið með forystu. 

Strax í upphafi síðari hálfleiks gerðist umdeilt atvik. Danny féll eftir viðskipti við Fabinho. Liverpool sneri vörn í sókn. Boltinn gekk fram völlinn. Andrew Robertson náði boltanum rétt áður en hann fór aftur fyrir endamörk vinstra megin og sendi hann með hælnum á Roberto Firmino. Hann sendi meistaralega hælspyrnu til baka á Alex Oxlade- Chamberlain sem lék út fyrir vítateiginn þaðan sem hann skaut boltanum með jörðinni neðst í markhornið. Tilþrif í undirbúningnum og kjaftshögg fyrir Southampton. 

Á 55. mínútu hóf Alisson sókn. Boltinn gekk manna á milli fram völlinn þar til Mohamed Salah stakk sér inn fyrir og skoraði en var dæmdur rangstæður. Tæpt en rétt. Leiðinlegt því sóknin var gullfalleg. En fimm mínútum seinna skoraði Liverpool aftur. Trent Alexander-Arnaold sendi yfir til vinstri á Roberto sem lék upp að endamörkum og sendi út í vítateiginn á Jordan Henderson sem tók vel við boltanum, lagði hann fyrir sig og skoraði af yfirvegun. Fallegt hjá fyrirliðanum. 

Á 69. mínútu gerði Southampton skiptingu. Danny Ings fór af velli undir dynjandi klappi stuðningsmanna Liverpool. Magnað andartak! 

Liverpool réði nú lögum og lofum og allur kraftur úr Southampton. Á 71. mínútu endaði gott samspil með því að Jordan sendi boltann hárnákvæmt inn fyrir vörnina. Varnarmaður Southampton rétt missti af boltanum. Mohamed slapp einn í gegn og lyfti boltanum snilldarlega yfir Alex í markinu. 

Á 78. mínútu fékk Roberto færi eftir góða sendingu Naby Keita en markmaðurinn varði með úthlaupi. Átta mínútum seinna barst boltinn til varamannanna Takumi Minamino og Naby sem voru saman í upplögðu færi. Þeir þvældust fyrir hvor öðrum en Takumi tók skotið en boltinn fór upp í Kop stúkuna.  

Fjórða markið skilaði sér á lokamínútunni. Aftur gekk falleg sókn fram allan völlinn. Sóknin endaði með því að Roberto sendi á Mohamed og hann skoraði af stuttu færi. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu vel og sungu sigursöngva þegar flautað var af. Þæfingur sem endaði með stórsigri! 

Liverpool lék ekki vel í fyrri hálfleik og hefði getað verið undir en í síðari hálfleik sýndu Evrópumeistararnir sitt rétta andlit. Frábær sigur og það er hreint út sagt ótrúlegt að Liverpool sé með 22. stiga forystu í deildinni! Skref nær settu marki!

Liverpool: Alisson; Alexander-Arnold, Gomez, Van Dijk, Roberston; Henderson (Lallana 88. mín.) Fabinho, Wijnaldum (Minamino 81. mín.); Oxlade-Chamberlain (Keita 73. mín.), Firmino og Salah. Ónotaðir varamenn: Adrian, Lovren, Origi og Matip.

Mörk Liverpool: Alex Oxlade-Chamberlain (47. mín.), Jordan Henderson (60. mín.) og Mohamed Salah (71. og 90. mín.).

Southampton:
 McCarthy, Ward-Prowse, Stephens, Bednarek, Bertrand, Djenepo (Boufal 82. mín.), Romeu, Hojberg, Redmond; Ings (Adams 69. mín.) og Long (Obafemi 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Gunn, Vestergaard, Smallbone og Danso.

Gul spjöld: James Ward-Prowse og Jack Stephens. 

Áhorfendur á Anfield Road: 53.291.

Maður leiksins:
Roberto Firmino tókst ekki að skora á Anfield frekar en hingað til á leiktíðinni en hann var frábær og lagði upp hvorki fleiri né færri en þrjú mörk!

Jürgen Klopp:
Strákarnir lögðu geysilega hart að sér. Allir settu allt á fullt. Þetta gerir þennan leikmannahóp alveg einstakan. Við vorum ekkert að spá í að hvort við næðum 22. stiga forystu. Við ætlum okkur bara að vera með 73 stig eftir þennan leikdag. Það tókst og þess vegna er allt í himnalagi á þessum tímapunkti. 

Fróðleikur

- Alex Oxlade-Chamberlain skoraði sjöunda mark sitt á keppnistímabilinu.

- Jordan Henderson skoraði í þriðja sinn á leiktíðinni. 

- Mohamed Salah er nú búinn að skora 18 mörk á sparktíðinni. 

- Þegar flautað var til leiksloka var Liverpool með 22. stiga forskot á Manchester City. Lið hefur aldrei áður verið með jafnmikla forystu. 

- Þetta var sjötti sigur Liverpool í röð á Southampton. Í þremur síðustu leikjum Liverpool á Southampton á Anfield er markatalan 10:0!

- Þetta var 20. sigur Liverpool í röð á Anfield.

- Af síðustu 102 stigum sem Liverpool hefur mögulega getað náð í deildinni hefur liðið náð 100!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan