| Grétar Magnússon

Baráttusigur

Enn einn sigurinn í deildinni vannst í erfiðum leik gegn Úlfunum á útivelli. Lokatölur voru 1-2 þar sem Roberto Firmino skoraði sigurmarkið sex mínútum fyrir leikslok.

Byrjunarlið Jürgen Klopp var óbreytt þriðja leikinn í röð, ungliðinn Neco Williams var á bekknum þar sem Adam Lallana gat ekki verið með vegna veikinda. Hjá Úlfunum sneru þeir Willy Boly og Jota til baka í leikmannahópinn eftir meiðsli en fengu sér sæti á bekknum.

Ekki þurftum við að bíða lengi eftir fyrsta marki leiksins. Mohamed Salah fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateiginn hægra megin og Trent Alexander-Arnold tók spyrnuna. Skotið fór í varnarvegg Úlfana og afturfyrir markið. Alexander-Arnold tók að sjálfsögðu hornið, í teignum var fyrirliðinn mættur og skallaði boltann upp í nærhornið. Enn eitt markið eftir hornspyrnu og því var að sjálfsögðu vel fagnað. Myndbandsdómgæslan blandaði sér í málið til að skoða hvort boltinn hefði farið í hendi leikmanns Liverpool en það var auðvitað ekkert slíkt í gangi og markið stóð. Heimamenn létu þetta lítið á sig fá enda sennilega orðnir vanir því að lenda undir í leikjum sínum á tímabilinu. Matt Doherty fékk ansi gott færi til að jafna ekki svo löngu eftir markið þegar hann var óvaldaður á fjærstönginni en skalli hans hitti ekki á markið sem betur fer.

Eftir um hálftíma leik þurfti svo Sadio Mané að fara af leikvelli vegna meiðsla og inná kom Takumi Minamino í sínum fyrsta úrvalsdeildarleik fyrir félagið. Leikurinn var áfram jafn, Raúl Jiménez skapaði sér pláss í teignum og skaut en hitti ekki markið og undir lok fyrri hálfleiks skeiðaði Salah inní teig og þegar skotið reið af náði einn varnarmaður að renna sér fyrir boltann sem skoppaði svo í hendur Rui Patrício í markinu. Staðan í hálfleik 0-1 og allt í járnum þannig séð og ljóst að Úlfarnir væru alls ekki búnir að leggja árar í bát. Eins og í fyrri hálfleik þurfti ekki að bíða lengi eftir fyrsta marki seinni hálfleiks. Patrício kastaði boltanum fram á miðjuna til Jiménez sem lagði hann út til hægri, fékk boltann aftur og labbaði framhjá Robertson. Hann sendi út á kant á Adama Traoré sem nýtti auðvitað hraða sinn, komst upp að vítateig og sendi boltann beint á kollinn á Jiménez sem skallaði snyrtilega framhjá Alisson í markinu. Nú voru heimamenn virkilega komnir í gírinn og Traoré gerði mönnum einstaklega lífið leitt, þá sérstaklega Robertson sem fékk gult spjald fyrir tæklingu rétt fyrir utan teig skömmu síðar.



Alisson varði svo mjög vel skot frá Traoré í teignum og sem betur fer fór frákastið ekki í fætur heimamanna. Klopp sá ástæðu til að gera breytingar og setti Fabinho inná fyrir Oxlade-Chamberlain og breytti í 4-4-2 með Salah og Firmino uppá topp. Okkar menn stóðust áhlaup Úlfanna og eins og svo oft áður náðu þeir að koma inn marki áður en lokaflautan gall. Salah fékk boltann fyrir utan teig og reyndi að komast framhjá þéttum varnarmúr. Boltinn barst til Henderson sem lagði hann inná teig á Firmino. Brasilíumaðurinn fíflaði Conor Coady með einni snertingu og þrumaði svo boltanum í markið úr teignum. Glæsilegt mark ! Úlfarnir gáfust ekki upp eins og þeirra er von og vísa og í blálokin fékk Jota skotfæri á teignum en hitti boltann illa og þeir rauðu önduðu léttar.

Wolves: Rui Patrício, Dendoncker, Coady, Saïss, Doherty, Neves, João Moutinho (Gibbs-White, 87. mín.), Castro Otto, Neto (Jota, 77. mín.), Traoré, Jiménez. Ónotaðir varamenn: Ruddy, Boly, Giles, Kilman, Ashley-Seal.

Mark Wolves: Raúl Jiménez (51. mín.).

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Gomez, van Dijk, Robertson, Oxlade-Chamberlain (Fabinho, 70. mín.), Henderson, Wijnaldum, Salah (Origi, 85. mín.), Firmino, Mané (Minamino, 33. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrián, Matip, Williams, Jones.

Mörk Liverpool: Jordan Henderson (8. mín.) og Roberto Firmino (84. mín.).

Gult spjald: Andy Robertson.

Áhorfendur á Molineux: 31.746.

Maður leiksins: Fyrirliðinn Jordan Henderson heldur áfram að spila frábærlega á miðjunni og skoraði fyrsta mark leiksins. Hann hefur stungið uppí ansi marga með spilamennsku sinni undanfarin misseri og þeir sem efuðust um leiðtogahæfileika hans ættu nú ekki lengur að efast.

Jürgen Klopp: ,,Við breyttum skipulaginu tvisvar eða þrisvar, við róuðum leikinn niður. Við fengum úrvals færi í fyrri hálfleik en í lokin þurfti töfra frá Bobby. Strákarnir eru mennskir. Leikurinn var svolítið upp og niður. Við ræddum saman inná vellinum, vissulega þurfti að laga nokkur atriði en föst leikatriði geta komið okkur inn í leiki, smá auka leikni getur komið okkur inn í leiki. Úlfarnir voru virkilega sterkir en það var ljóst að við myndum jafna okkur fljótt eftir mark þeirra. Maður þarf alltaf að finna leiðir til að vinna og hafa einhvern sem tekur hárréttar ákvarðanir og aftur var það Bobby sem sá um það."

Fróðleikur:

- 67 stig Liverpool af 69 mögulegum í deildinni er fimm stigum meira en nokkurt annað lið hefur náð eftir 23 deildarleiki.

- Liverpool hafði ekki fengið á sig mark í 725 mínútur (50 daga) þegar Jiménez braut ísinn.

- Roberto Firmino skoraði 8. deildarmark sitt á leiktíðinni og 10. markið alls. Öll mörkin hafa komið á útivelli.

- Firmino hefur skorað sex mörk í síðustu átta leikjum fyrir félagið, jafn mörg og hann hafði gert í síðustu 32 leikjum.

- Jordan Henderson skoraði 2. mark sitt á leiktíðinni.






TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan