| HI

Stórsigur hjá 23 ára liðinu

U-23 lið Liverpool vann stórsigur á jafnöldrum sínum frá Southampton í gærkvöld, 5-0. Nýjasti liðsmaðurinn, Joe Hardy, stimplaði sig rækilega inn með því að skora tvö markanna í leiknum.


Í liðinu voru meðal annars þrjár hetjur frá bikarleiknum gegn Everton - Curtis Jones, Neco Williams og Harvey Elliott. Það var einmitt Elliott sem skoraði fyrsta markið eftir þriggja mínútna leik þegar hann tók frábæra stungusendingu Pedro Chirivella á bringuna og afgreiddi boltann í netið.

Þá tók Joe Hardy tók til sinna ráða og henti í tvö mörk fyrir hlé. Í því fyrra lagði Elliott boltann fyrir fætur Hardy sem skoraði með góðu skoti í fjærhornið. Tveimur mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks fékk Hardy svo sendingu frá Curtis Jones fyrirliða, lagði hann fyrir sig og þrumaði honum í netið. Jones hafði áður fengið þrjú prýðileg færi í hálfleiknum sem hafði verið algjör einstefna af hálfu Liverpool.

Curtis Jones, sem hélt áfram að vaða í færum í seinni hálfleik, skoraði svo fjórða markið þremur mínútum fyrir leikslok  og þð var af dýrari gerðinni - þrumufleygur utan vítateigs upp í hornið. Liam Millar, sem er nýkominn úr láni frá Kilmarnock í Skotlandi, bætti svo fimmta markinu við í blálokin af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Neco Williams.

Liverpool er sem stendur í 8. sæti deildarinnar en á 1-2 leiki inni á flest lið. Næsti leikur liðsins er á föstudaginn gegn Wigan.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan