| Sf. Gutt

Sterkur sigur í London

Liverpool vann sterkan sigur í London nú undir kvöldið. Liverpool lagði Tottenham Hotspur að velli 0:1 og leiðir deildina sem fyrr. 

Sterkasta lið Liverpool var sent til leiks eftir allar breytingarnar sem voru gerðar á liðinu á móti Everton um síðustu helgi. Í fyrsta skipti í meira en mánuð höfðu leikmenn Liverpool fengið kærkomið fimm daga frí milli leikja án ferðalaga.

Liverpool hóf leikinn af miklum krafti og á 2. mínútu kom hröð sókn fram allan völlinn. Roberto Firmino átti skot úr vítateignum sem bjargað var á línu. Roberto náði frákastinu, gaf á Alex Oxlade-Chamberlain en fast skot hans af stuttu færi fór í stöngina innanverða. Liverpool var mikið með boltann enda léku heimamenn mjög aftarlega á vellinum og reyndu að leggja upp með skyndisóknir. Merkileg leikaðferð á heimavelli!

Á 23. mínútu átti Virgil van Dijk skalla eftir horn en Paulo Gazzaniga varði. Liverpool komst svo yfir á 37. mínútu. Jordan Henderson sýndi harðfylgi með því að skalla boltann inn að markinu. Mohamed Salah fékk boltann og sendi stutta sendingu út til vinstri á Roberto Firmino sem lék á varnarmann, lagði boltann fyrir sig og skoraði með föstu skoti af stuttu færi. Mjög vel gert hjá Roberto og Liverpool komið með verðskuldaða forystu sem stóð í hálfleik. 

Sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik. Liverpool var með boltann löngum stundum og heimamenn biðu eftir mistökum. Lengst af var lítið um færi. Á 57. mínútu átti Serge Aurier skot sem Alisson Becker varði af öryggi. Hinu mengin ógnaði Roberto en Paulo varði. Þegar stundarfjórðungur var eftir fór Tottenham aðeins að reyna að sækja. Son Heung-Min skaut yfir úr góðu færi eftir að Liverpool hafði misst boltann á eigin vallarhelmingi. Þegar átta mínútur voru eftir munaði litlu þegar  Giovani Lo Celso fékk sendingu inn að markinu en skot hans af stuttu færi fór framhjá. Á lokamínútunni varði Alisson skot frá Son og sá þar með um að sigur Liverpool var í höfn. 

Liverpool lék vel í leiknum og sýndi enn og aftur þá baráttu og einbeitingu sem til þurfti að innbyrða sigur á erfiðum útivelli. Vel gert í fyrstu heimsókn Liverpool á nýja heimavöll Tottenham Hotspur!

Tottenham Hotspur: Gazzaniga; Tanganga, Davinson Sanchez, Alderweireld; Aurier, Winks, Eriksen (Lo Celso 69. mín.), Rose (Lamela 69. mín.); Moura, Son og Alli. Ónotaðir varamenn: Vorm, Vertonghen, Dier, Sessegnon og Skipp.

Liverpool: Alisson; Alexander-Arnold, Gomez, Van Dijk, Robertson; Oxlade-Chamberlain (Lallana 60. mín.), Henderson, Wijnaldum; Salah (Shaqiri 90. mín.), Firmino og Mane (Origi 80. mín.). Ónotaðir varamenn: Adrian, Minamino, Phillips og Williams.

Mark Liverpool: Roberto Firmino (37. mín.).

Gul spjöld:
Joe Gomez og  Alex Oxlade-Chamberlain.

Áhorfendur á Tottenham Hotspur leikvanginum: 61.023.

Maður leiksins: Alisson Becker. Brsilíumaðurinn var öryggið uppmálað í markinu og hélt hreinu sjötta deildarleikinn í röð.

Jürgen Klopp: Við vorum ekki upp á okkar besta en við spiluðum mjög vel á löngum köflum. Þetta var hörkuleikur. Allt hið besta mál! 

Fróðleikur

- Roberto Firmino skoraði níunda mark sitt á keppnistímabilinu.

- Hann hefur hingað til ekki ennþá skorað á Anfield Road. 

- Liverpool setti félagsmet með því að spila 38. deilarleik sinn í röð án taps. 

- Joe Gomez spilaði sinn 90. leik fyrir hönd Liverpool. 

- Xherdan Shaqiri lék sinn 40. leik með Liverpool. Hann er búinn að skora sjö mörk. 

- Liverpool spilaði í fyrsta sinn á nýja Tottenham Hotspur leikvanginum.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan