| Sf. Gutt

Hent fyrir ljónin


Það er óhætt að segja að ungliðum Liverpool hafi verið hent fyrir ljónin á Villa Park í kvöld. Ungliðar Liverpool máttu þola stórtap 5:0 en stóðu sig með sóma!

Eins og allir vita er aðallið Liverpool núna í Katar þar sem liðið tekur þátt í Heimsmeistarakeppni félagsliða. Þar sem Enska knattspyrnusambandið gaf ekki kost á öðru en Liverpool spilaði við Aston Villa á Villa Park í kvöld varð Liverpool að tefla fram ungliðum. 

Neil Critchley, þjálfari undir 23. ára liðs, Liverpool stjórnaði liðinu. Meðalaldur liðs Liverpol, 19 ár og 182 dagar, var sá lægsti í sögu félagsins. Leikmenn byrjunarliðs Liverpool áttu aðeins samtals 16 leiki að baki fyrir félagið. Átta leikmenn, Isaac Christie-Davies, Luis Longstaff, Leighton Clarkson, Morgan Boyes, Tony Gallacher, Jack Bearne, James Norris og Thomas Hill, léku í fyrsta sinn fyrir hönd Liverpool.




Ungliðar Liverpool stóðu sig mjög vel og það hefði ekki verið ósanngjarnt að Liverpool hefði komist yfir í byrjun leiks. En reyndir leikmenn Aston Villa notuðu sín færi og komust í 4:0 í fyrri hálfleik. Fimmta markið kom í viðbótartíma. Ekki er annað hægt að segja en að sigur Aston Villa hafi verið alltof of stór miðað við gang leiksins!


Ungliðarnir hjá Liverpool stóðu sig með miklum sóma. Það sagði sína sögu að áhorfendur á Villa Park klöppuðu þeim lof í lófa þegar þeir gengu af velli í leikslok.

Aston Villa: Nyland, El Mohamady, Chester (Hause 77. mín.), Konsa, Taylor, Lansbury, Douglas Luiz, Hourihane, Jota, Kodjia (Wesley 73. mín.) og Trézéguet. Ónotaðir varamenn: McGinn, El Ghazi og L Kalinic.

Mörk Aston Villa: Conor Hourihane (14. mín.), Morgan Boyes, sm, (17. mín.), Joanathan Kodjia (37. og 45. mín) og Wesley (90. mín.).

Liverpool: Kelleher, Hoever (Norris 82. mín.), van den Berg, Boyes, Gallacher, Christie-Davies (Clarkson 77. mín.), Chirivella, Kane, Elliott, Longstaff (Bearne 65. mín.) og Hill. Ónotaðir varamenn. Winterbottom, Clayton, Dixon-Bonner og Stewart.

Gult spjald: Isaac Christie-Davies.

Áhorfendur á Villa Park:
 30.323. 

Maður leiksins: Ætli megi ekki segja að allir strákarnir eigi skilið að vera útnefndir. Þeir stóðu sig, allir með tölu, með sóma við erfiðar aðstæður á móti ofurefli! 

Neil Critchley: Mér fannst við standa okkur frábærlega. Við vorum frábærir frá byrjun og fengum nokkur færi á upphafskafla leiksins. Sumir strákarnir sýndu okkur að þeir geta spilað fyrir okkar hönd eða annarra í Úrvalsdeildinni. Þeir vita að þetta er bara byrjunin á ferðalagi sem þeir eiga fyrir höndum. Gríðarlegt stolt er mér efst í huga. 




Fróðleikur

- Þetta var stærsta tap Liverpool í Deildarbikarnum frá upphafi. 

- Meðalaldur liðs Liverpol, 19 ár og 182 dagar, var sá lægsti í sögu félagsins

- Morgan Boyes, Tony Gallacher, Isaac Christie-Davies, Luis Longstaff, Thomas Hill, Jack Bearne, Leighton Clarkson og James Norris, léku í fyrsta sinn fyrir hönd Liverpool.

- Aldrei áður hafa fleiri leikmenn Liverpool, átta talsins, spilað sinn fyrsta leik í sama leiknum.  

- James Norris varð fjórði yngsti leikmaður í sögu Liverpool. Hann var 16 ára, átta mánaða og 13 daga gamall.

- Ben Winterbottom, Tom Clayton, Elijah Dixon-Bonner og Layton Stewart voru í fyrsta skipti í aðalliðshópi Liverpool.

- Leikmenn Liverpool í leikmannahópnum höfðu aðeins spilað samtals 16 leiki fyrir félagið. Það merkilega var að Herbie Kane hafði spilað miklu fleiri leiki með Doncaster Rovers eða 49. 

- Þetta var fyrsta tap Liverpool í 20 leikjum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan