| Sf. Gutt

Hent fyrir ljónin


Nú þegar fyrsti leikur Liverpool í Deildarbikarnum á þessari leiktíð er að koma mætti rifja þann síðasta upp. Ungliðum Liverpool var þá hent fyrir ljónin á Villa Park!

Aðallið Liverpool var í Katar til að taka þátt í Heimsmeistarakeppni félagsliða. Enska knattspyrnusambandið gaf ekki kost á öðru en Liverpool spilaði við Aston Villa á Villa Park 17. desemebr þó svo að liðið ætti að spila sólarhring seinna við Monterrey suður í Katar. 

Neil Critchley, þjálfari undir 23. ára liðs, Liverpool stjórnaði liðinu. Meðalaldur liðs Liverpol, 19 ár og 182 dagar, var sá lægsti í sögu félagsins. Leikmenn byrjunarliðs Liverpool áttu aðeins samtals 16 leiki að baki fyrir félagið. Átta leikmenn, Isaac Christie-Davies, Luis Longstaff, Leighton Clarkson, Morgan Boyes, Tony Gallacher, Jack Bearne, James Norris og Thomas Hill, léku sína fyrstu leiki og var það félagsmet. 
Liverpool: Kelleher, Hoever (Norris 82. mín.), van den Berg, Boyes, Gallacher, Christie-Davies (Clarkson 77. mín.), Chirivella, Kane, Elliott, Longstaff (Bearne 65. mín.) og Hill. Ónotaðir varamenn. Winterbottom, Clayton, Dixon-Bonner og Stewart.

Ungliðar Liverpool stóðu sig mjög vel og það hefði ekki verið ósanngjarnt að Liverpool hefði komist yfir í byrjun leiks. En reyndir leikmenn Aston Villa notuðu sín færi og komust í 4:0 í fyrri hálfleik. Fimmta markið kom í viðbótartíma og stærsta tap Liverpool í Deildarbikarnum varð staðreynd. Ungliðarnir fengu mikið hrós og 30.323 áhorfendur klöppuðu þeim lof í lófa. Aston Villa komst alla leið á Wembley en tapaði fyrir Manchester City í úrslitaleik. 
Daginn eftir vann Liverpool Monterrey í Katar og komst í úrslitaleikinn um heimsbikar félagsliða. Liverpool vann svo bikarinn eftir sigur á Flamengo í úrslitaleik. Ferðin til Katar borgaði sig sannarlega en á Villa Park var ungliðum Liverpool hent fyrir ljónin af knattspyrnuyfirvöldum á Englandi! 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan