| Grétar Magnússon

Fleiri nýir samningar !

James Milner ákvað að feta í fótspor Jürgen Klopp í dag og skrifaði undir nýjan samning við félagið. Samningur hans hefði runnið út í sumar ef ekki hefði náðst samkomulag um framlengingu.



Milner kom til félagsins á frjálsri sölu sumarið 2015 og hefur til þessa leikið 198 leiki, skorað 25 mörk og hafa þau flest komið af vítapunktinum af fádæma öryggi. Á ferli sínum hjá félaginu hefur hann tekið þátt í fimm úrslitaleikjum og í sumar náðist loksins að lyfta bikar. Skömmu eftir komu sína var Milner útnefndur varafyrirliði sem sýndi að hann nýtur mikillar virðingar innan leikmannahópsins.

Milner telur hinsvegar að það sé hægt að áorka mun meiru og er þess vegna hæstánægður með að framlengja samning sinn við félagið til að geta lagt sitt af mörkum.

,,Ég hef notið þeirra forréttinda og verið heppinn að spila fyrir þetta félag í fjögur og hálft ár núna, þetta hefur verið stórkostlegur tími þar sem ég hef séð félagið breytast og þróast í rétta átt," sagði Milner í viðtalið skömmu eftir undirskriftina.

,,Ég nýt þess að mæta til æfinga á hverjum degi, vinna með þessum leikmannahóp, þjálfaranum og teymi hans og ekki síst að vera hluti af þessu félagi. Ég átti samræður við félagið og þetta var augljóslega best fyrir mig, ég vildi framlengja, vera hér og halda áfram að spila á hæsta leveli eins lengi og ég get. Liverpool er magnaður staður og við erum með mjög mjög gott knattspyrnulið sem vonandi heldur bara áfram að bæta sig."

,,Stjórinn beið svo augljóslega með að framlengja sjálfur þangað til að ljóst væri að ég myndi vera hér lengur og mér finnst ég þá vera aðeins mikilvægari en áður !"

Milner hefur tekið þátt í 21 leik það sem af er tímabili og nú þegar leikjadagskráin er þétt og heimsmeistarakeppni félagsliða á næsta leiti vill hann auðvitað leggja áherslu á að sækja fleiri bikara í safnið.

,,Þegar maður vinnur titil eins og á síðasta tímabili þá er auðvelt að setjast aftur í stólnum og slaka aðeins á, við höfum hinsvegar gert ákkúrat öfugt," sagði Milner. Það er mikið eftir af tímabilinu, við vitum það og enginn er að fara framúr sjálfum sér. Það sýnir styrk leikmannahópsins að við tökum einn leik fyrir og einbeitum okkur að einu verkefni í einu."

,,Fólk sér hvað leikmennirnir eru einbeittir að halda áfram og við reynum ávallt að spila ákafan leik þó svo að stutt sé á milli þeirra eins og þessa dagana. En þetta ber vitni um það hversu mikla vinnu menn leggja á sig alla daga á Melwood, andlegan styrk okkar og trúna á því að við verðum að halda áfram og ná okkar markmiðum. Eins og ég sagði þá er langt í land en við munum halda áfram, reyna að bæta okkur og svo vonandi njóta velgengni með félaginu."




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan