| Sf. Gutt

Sigurganga Celtic heldur áfram


Það fór ekki svo að lærisveinar Steven Gerrard næðu að stöðva sigurgöngu Celtic í skosku knattspyrnunni. Rangers mátti þola tap í úrslitaleik Deildarbikarsins á Hampden Park í Glasgow á sunnudaginn. Celtic vann 1:0 en Rangers átti leikinn með húð og hári. Ekki er annað hægt að segja en úrslitin hafi verið mjög ósanngjörn en það er ekki spurt að því!

Christopher Jullien skoraði sigurmarkið úr eina skoti Celtic á rammann í leiknum. Reyndar hefði markið ekki átt að standa vegna rangstöðu. Fraser Forster bjargaði Celtic frá tapi í leiknum og varði meðal annars víti frá Alfredo Morelos. Til að bæta gráu ofan á svart þá lék Rangers manni fleiri lokakaflann en leikmaður Celtic fékk rautt spjald þegar vítið var dæmt. Celtic hefur nú unnið tíu titla í röð í Skotlandi.  

Ryan Kent, fyrrum leikmaður Liverpool, var í byrjunarliði Rangers. Jon Flanagan og Sheyi Ojo, sem er í láni frá Liverpool, voru á bekknum. 

Hvernig sem á það er litið þá hefur Rangers tekið miklum framförum undir stjórn Steven og liðið veitir Celtic harða keppni í deildinni. Alla vega það sem af er leiktíðar. 

Rangers tryggði sér svo í kvöld áframhald upp úr riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Liðið keppir í útsláttarkeppninni í nýju ári og gæti þar mætt Celtic sem komst líka áfram úr sínum riðli. 


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan